06 október, 2005

Konungsfólkið

Mig langar til að reyna að lýsa konungsfólkinu fyrir þeim sem hafa ekki hitt þau. Eins og við höfum sagt þá mega þau ekki vita að okkur vanhagi um neitt því þá eru þau komin með lið í málið. Gott dæmi er með bílakaupin. Þau voru að sjálfsögðu driffjöðurin í þessu máli. Okkur Önnu Sóley hundleiðist að skoða bíla og viljum helst bara ljúka þessu af. En drottningunni finnst ekkert skemmtilegra og hefur verið alveg einstaklega hjálpleg. Ég hef fengið svona c.a. 20 tölvupósta frá konungsfólkinu síðastliðnar 2 vikur varðandi bílakaup. Þau koma daglega með bílatímarit sem þau hafa farið í gegnum kvöld eftir kvöld að leita að greinum um hina og þessa bíla. Þau hafa komið með okkur að prufuaka og taka eigendurna á beinið varðandi hitt og þetta.

Þegar við svo loks höfðum fundið bílinn hringdu þau í fyrri eigendur og spurðu þá spjörunum úr. Þau fengu á faxi allar kvittanir fyrir viðhaldi og ég veit ekki hvað og hvað. Síðan þá hafa þau sent okkur Volvo tímarit og allskonar annað tilheyrandi. Í morgun hringdi kóngurinn og spurði hvort við værum ennþá alveg 100% á því að kaupa bílinn. Ég jánkaði og heyrði í andvarp í drottningunni í bakgrunni. Hún var svo svekkt að þetta væri allt saman yfirstaðið. Hún elskar að standa í bílakaupum. Reyndar elskar hún að hjálpa. Hún fann t.d. bíla í 8 klukkutíma fjarlægð frá okkur og taldi að þetta gæti verið skemmtilegt ferðalag okkur öll saman því hún vill sýna okkur alla Svíþjóð, helst strax.

Já eins og ég sagði, við gætum ekki verið heppnari með leigusala. Þetta er eðalfólk!!!

Annað stutt dæmi. Þegar þau tóku á móti okkur á flugvellinum voru þau með sæng, kodda og bangsa í bílnum ef Jana vildi sofa. Það sýnir afskaplega vel hvernig þau hugsa.

Jamm, maður reynir að læra á þessu fólki og breyta sér til betri vegar ;)

0 Ummæli:

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim