nýtt upphaf, nýr bekkur
hæ hæ,
skólinn byrjaður aftur og ég er spennt yfir nýjum verkefnum. Það verður að segjast að það er léttir fyrir mig að kennslan er á ensku. Það er einfaldlega léttara þó ég hafi lært mikið í sænskunni fyrir jól. Nú hoppa ég af 3. ári yfir á 4.ár og þar fer kennslan alltaf fram á ensku. Það er vegna þess að það eru svo margir skiptinemar í hópnum á þessu ári. Í kringum mig í gær heyrðist mér á hópnum að kannski helmingurinn væri útlendingar, veiiiii, ég sé fram á bjartari tíma! Það reyndist virkilega erfitt að kynnast fólki á 3.ári sem voru allt Svíar svo ég er spennt að vita hvort það gangi betur núna. Í sumar á sænskunámskeiðinu var ég í mjög skemmtilegum hópi með fólki frá öllum löndum, svo tvístraðist sá hópur eftir prófið. Þá þurfti ég að kynnast sænska bekknum þar sem allir voru vinalegir en frekar lokaðir í sínum vinahópum. Svo nú er ég að byrja í þriðja sinn að kynnast nýju fólki!!!
úff dáldið lýjandi.
Það sem kom mér mest á óvart var að vegna þess að ég þekkti fáa vel og kunni sænskuna ekki nógu vel, þá gat ég ekki grínast eins mikið á daginn og maður er vanur. Ég saknaði virkilega húmorsins í daglega lífinu, það kom á óvart hvað sá partur er mikilvægur dagsdaglega.
Ég veit að ef ég hefði ekki haft fjölskylduna mína með mér hér hefði ég verið verulega einmanna, það er trúlega erfitt að búa hér einn sem útlendingur. Svo það var eins gott að ég hafði þennan frábæra félagsskap á kvöldin og um helgar :)
Já þetta er skrítið með Svíana, en það var svosem búið að vara mig við þessu. Ég hef heyrt frá vinum sem hafa búið hér að það hafi alveg tekið ár þar til hægt var að eignast vini hér.
En á hinn bóginn varðandi Svía, þá höfum við verið heppin í nágrenninu okkar. Fjölskyldan hér á móti, margumtalaða er náttúrulega orðin eins og okkar eigin fjölskylda og sú vinátta á alltaf eftir að haldast. Hjónin eru eins og staðgenglaforeldrar okkar og sonur þeirra og Dagur orðnir mjög góðir vinir.
Svo eigum við fleira vinafólk hér í kring en þau öll eru aðeins eldri en við.
Svo verður að nefnast að við sjáum mikinn mun á sænskum krökkum og íslenskum. Krakkarnir hér eru miklu kurteisari við fullorðna og skólafélagar Dags eru mjög opnir og vinalegir gagnvart honum.
Síðast en ekki síst eru unglingarnir duglegir að spjalla við og hjálpa þeim sem eru yngri, ég sæi það í anda á íslenskri skólalóð!
Degi finnst mjög skrítið hvað mér gengur illa að kynnast mínum skólafélögum. Hann segir mér bara að ganga upp að þeim og spurja hvort ég megi ekki vera með... :)
Ég fékk frábært upphitunarverkefni í skólanum. Þið hafið kannski heyrt um alheimskosninguna um nýjustu 7 undur veraldar, hægt að sjá allt um það á www.new7wonders.com
Allavega verkefnið er að við eigum öll að gera okkar eigin lista yfir nýjustu 7 undur veraldar. Byggingar eða eitthvað manngert frá hvaða tíma sem er. Spennandi!
Hugmyndir???
Anna Sóley
4 Ummæli:
hæ
sammála því hvað húmor er mikilvægur hluti af daglegu lífi manns og skondið að fatta hvað margt er ekki hægt að heimfæra yfir á annað tungumál. Ég hef líka komist að því hvað ég hugsa oft í orðatiltækjum og málsháttum og langar stöðugt að vera að þýða þetta yfir á ensku en mæti bara tómlegu augnatilliti þeirra sem ég er að tala við þegar ég reyni. Það er alltaf hálf vonlaust þegar maður þarf að útskýra aulabrandarana eða orðatiltækin því þegar viðkomandi fattar hvað maður átti við er mómentið farið!
Annars verð ég að taka upp hansskann (hanskana) fyrir íslenska unglinga því þó ég sé sammála því að oft séu þeir ekki eins kurteisir og 'agaðir' og ungmenni annarra þjóða þá finnst mér unglingar heima venjulega mjög tillitssamir og ljúfir við yngri nemendur.
Nú veistu að hér gæti hafist mikill fyrirlestur um vinnugeðveiki íslendinga, skólakerfið osfrv. en ég skal sleppa því.
Vona að þú kynnist mörgu frábæru fólki, er raunar viss um að þú gerir það, en gleymdu ekki að þú átt alltaf þessa gömlu góðu :)
xxÞ
ég sting uppá nýju hringbrautinni sem eitt af sjö undrum veraldar. reyndi í þrígang að komast uppí árbæ um daginn og endaði í öll skiptin í vesturbænum! mætti halda að dagur eggerts hefði tekið hringbrautina og snorrabrautina og bundið á þær rembihnút, sem hlýtur að teljast til helstu afreka hans á sviði stjórnmála. en talandi um íslenska unglinga þá bera þeir nú höfuð og herðar yfir aðra aldurshópa þessarar undarlegu þjóðar. hvað svosem hægt er að segja um hegðanamynstur þeirra þá finnst mér frekar augljóst að alvarlega fer ekki að halla undan fæti fyrr en uppúr tvítugu þegar siðferðislegur alzheimer virðist heltaka stofninn.
ormur.
sammála með hringbrautina.Ég enda alltaf á að taka ólöglega U begju á næstu ljósum.
áh
það er óneitanlega freistandi að taka hringbrautina á listann, en það er erfitt að útskýra það magnaða fyrirbæri fyrir ókunnugum kennara. Takk fyrir frábært tip engu að síður...þetta hlýtur að falla undir KLÚÐUR ALDARINNAR!
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim