07 maí, 2007

Þórarinn opnar hjólaskápinn sinn (Hluti 1)

Gul-blái fáninn blaktir við hún þegar Þórarinn, glettinn á svip, tekur á móti okkur á óðalssetrinu í Stokkhólmsskógi. Það skín í augum hans ástin á lífinu, þessi kraftur og orka sem einkennir Íslendinga í fjarbúð...svona gæti þessi greinaflokkur byrjað ef hann væri í Mannlífi eða Vikunni, en á þessum nýjustu tímum með nýjustu tækni sleppir maður öllu kjaftæði og kemur sér hreint til verks. Ég ætla að opna hjólaskápinn minn og leiða þá sem vilja í allan sannleikann varðandi hjól. Ég er nefnilega síðbúinn hjóladellukall og tiltölulega nýbúinn að fara í gegnum rússíbanaferð um ólgusjó hjólaævintýranna (Mannlíf aftur?).

Ég byrjaði að hjóla aftur (svona hálfgert comeback) í vinnuna í Point fyrir um 3 árum síðan, eftir að hafa unnið öll innanhúsmót setti ég markið hærra og út fyrir landsteinana. Ég gerði að vísu byrjendamistök og keypti ódýrt hjól í Byko sem virtist alls ekki vera slæm kaup en það brotnaði mánuði síðar. Það var raunar aldrei neitt skemmtilegt hjól. Ég er mjög feginn að það brotnaði svona fljótt því ég datt ekki alveg af baki heldur keypti mér almennilegt hjól í Markinu, Scott Sportster. Ef hitt hjólið hefði ekki brotnað svona fljótt hefði ég strögglast á því hálf óánægður í nokkra mánuði í viðbót og svo lagt það til hinstu hvílu yfir veturinn. Ég hefði
bara smá saman sannfærst um að hjól væru ekkert fyrir mig og trúlega liðu 10-15 ár þangað til ég myndi kannski prófa aftur. Hagkaupshjól eru fín fyrir krakka, þau vaxa hvort eð er svo fljótt upp úr þeim að maður fer ekki að borga tugi þúsunda á hverju ári fyrir. En það ættu að vera reglugerð sem bannar sölu þeirra til fullorðinna. Ég meina það! Ef okkur er alvara um að koma fólki í form og breyta Reykjavík úr bílaborg í hjólaborg má ekki ota svona gallagripum að fólki.

Það er ótrúlegur munur á Hagkaupshjólunum og góðum hjólum frá sérverslunum. Ég meina ÓTRÚLEGUR munur. Hér koma nokkur atriði sem skilja þau að.

Í dag þarfnast góð hjól lágmarks viðhalds, ef maður er ekki mikið fyrir að stilla gíra og bremsur og slíkt eru þessi hjól eins og draumur manns. Maður bara fer út og hjólar. Það byrjar ekkert að losna á þeim eða skrölta eða hljóma óeðlilega. Maður nýtur ferðarinnar án þess að hlusta eftir aukahljóðum og hafa áhyggjur af bremsum eða einhverju álíka. Þetta er líka munurinn frá því maður var lítill. Það var alltaf eitthvað vesen með hjólin, ekki lengur. Dekkin eru t.d. losuð frá stellinu með einu handtaki og hjólinu skellt í skottið. Eins tekur 5 mínútur að skipta um slöngu og NB ég hef hjólað mörg þúsund km en aðeins sprungið hjá mér tvisvar! Ef einhver er að spá í að prufa hvort hjól eigi við sig ætti hann alls ekki að kaupa Hagkaups eða Bykohjól. Ég mæli frekar með að kaupa notaðan Scott eða sambærilegt hjól. Hitt mun varla endurvekja áhugann!

Og ef einhver er í vafa um hvernig hjól hann vill mæli ég með svona hjóli. Þetta er Scottinn minn.

Einkenni hans er að það er með þunn dekk sem gerir það að verkum að fyrir sömu orku hjólar maður miklu lengra og hraðar en t.d. á fjallahjóli. Þannig að til að komast til vinnu er þetta mjög gott. Þetta er ekta göngustígahjól. Það eru engir demparar á mínu hjóli en ég hefði ekkert á móti því að hafa smá dempara að framan því á Íslandi sérstaklega er maður mikið að fara upp og niður kanta sem hefur smá skot í olnbogana. En ekki hafa demparana og mikla því þeir draga í sig orku, sum hjól eru með stillanlega dempara þannig að hægt sé með einu handaki læsa þeim. Þetta er hjól sem mjög auðvelt er að ferðast t.d. 5km á 15 mínútum. Þetta er líka hjólið sem ég set barnastólinn fyrir Jönu og sæki hana á leikskólann og við syngjum Hér kemur Lína Langsokk hástöfum. Þetta er líka hjólið sem ég nota mest á vorin þegar ekki er búið að þrífa götur og stíga. Ég hjóla í skólann minn 22 km á rétt rúmri klukkustund.

Við svona hjól getur maður hæglega bætt við allskonar farangri, t.d. hliðartöskum sem eru upplagðar fyrir verslunarferðir o.þ.h. Þetta er fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af. Þau áttu eftir að verða fleiri sem bitust um ást mína og er það efni næstu greina.

Hvað sem þið gerið, kaupið hjól með Shimano gírum og helst bremsum (margar góðar bremsur til líka). Hjól ætti ekki að vera meira en 13 kíló. Jafnvel þótt maður sé sjálfur að burðast með aukakíló skiptir miklu máli að hjólið sjálft sé ekki hlunkur. Það verður þá ómeðfærilegt og aksturseiginleikar versna.

Til að finna hvaða hjólamerki mælt er með og fá allskonar góð ráð mæli ég svo með að lesa korka/hjólamannaspjall hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur (http://hfr.vortex.is/) og Hjólamönnum (http://hjolamenn.is/). Jafnvel nokkrar vikur aftur. Þar er a.m.k. hægt að sjá hvaða verslanir eru að selja alvöru hjól.
Posted by Picasa

3 Ummæli:

Þann mið. maí 09, 10:45:00 f.h. , Blogger Árni Björn sagði...

Þetta er handa þér hjólagarpur

http://www.youtube.com/watch?v=rAOHhV1EFe4

 
Þann mið. maí 09, 12:13:00 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

HAHA góður þessi :) Þetta eru fyrirmyndirnar mínar!

 
Þann fim. maí 10, 11:13:00 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

Góð vikugrein ég táraðist, hlakka til að sjá part 2 og 3.
Ég er líka ástfanginn en sakna jafnframt Scottsins mikið. Þú nefnir skrölt og aukahljóð.. Þar sem ég rembist við að halda í við þig á heyri ég í þínu hjóli.. garrrrrg..
Skemmtilegt hjólagarpamyndband.

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim