Stuldir, afrit eða lán
Hérna er bekkjamynd af okkur. Ég er þarna með Jönu en hún kom með mér í skólann þennan dag því Anna Sóley var að vinna í módelinu sínu. En eins og sjá má er þetta mest austurlandabúar. Við erum 6 sem erum frá Evrópu og Ameríkunum en annars eru flestir frá Iran, Pakistan, Indlandi, Kína og Bangladess. Við förum nú öll í sitthvora áttina þar sem við eigum bara lokaverkefnið eftir ásamt 1-2 valáföngum.
Ég hef heyrt frá nokkrum hvað flestir þarna hafa þurft að berjast fyrir því að fá góða menntun í heimalandi sínu, en t.d. í Bangladess eru um þúsund umsækjendur fyrir hvert pláss í háskólum. Síðan hafa þeir staðið sig það vel að þeir komumst inn í eina fría tölvuöryggisháskólanámi í veröldinni. Það er í rauninni aðdáunarvert af Svíum að bjóða upp á þetta, þeir bjóða ekki einu sinni upp á sama nám á sænsku og það eru ekki neinir Svíar í náminu! Louise Yngström er konan fyrir miðju og er Deildarstjórinn okkar. Hún hefur stundað rannsóknir á tölvuöryggi í tugi ára og maður gæti trúað að svona manneskja sé frekar stíf á hlutunum. En hún er alveg hið gagnstæða. Hún elskar fólk, elskar að umgangast ólíkt fólk og þegar svona ólíkir menningarheimar koma saman eru engin vandamál. Ef einhver er með sérþarfir eða vill gera eitthvað öðruvísi er það fyrsta sem hún segir "Sjálfsagt mál!" jafnvel áður en hún hefur heyrt alla söguna. Þetta er alls ekki sjálfgefið hjá Svíum það get ég staðfest. Ótrúlega skemmtilegur eiginleiki - hún gengur um ástfangin af lífinu og efninu og það smitar út frá sér.
Við vorum í fagi um daginn (Scientific Writing) sem snýst um að kenna okkur að skrifa mastersritgerð. Við áttum að skrifa eina stutta "alvöru" ritgerð en kennarinn tók þær og setti í gegnum ritstuldarforrit sem þeir voru að fjárfesta í og útkoman var skelfileg. Sumar ritgerðir með allt að 70% efnisins "í láni" frá öðrum. Það er alveg ljóst að þetta er bara menningarmismunur. Í augum margra er aðal málið að finna textann. Ef hann er til einhverstaðar og er vel skrifaður er óþarfi að umorða það eitthvað eða endilega segja hvaðan hann kom - who cares anyway, menn mega nota þeirra texta að vild! Aðal málið er að finna upplýsingarnar og redda sér þannig. Kannski er það bara besti svindlarinn sem kemst áfram í þessum harða heimi sem þau koma úr, ég skal ekki segja. Þetta er líka alltaf spurning um hvar maður dregur línurnar á stuldi. Ég hika kannski ekki við að hlaða niður tónlist af netinu en er einhver eðlismunur á því og ritstuldi? Stundum tek ég ljósmyndir af netinu og nota þær á þessari blogsíðu. Mér finnst ég ekki vera að stela þótt það sé stuldur ef maður greinir það, en mér finndist það vera stuldur með afritaðan texta - það er bara eitthvað sem hefur verið prentað í höfuðið á mér einhverstaðar á lífsleiðinni. Nemendunum finnst það ekki svo ég get ekki sett mig á háan stall og sagt þjófar! En skólinn gerir það til að halda uppi heiðir akademíunnar og hefur hótað að reka þá sem ekki breyta sínum ritgerðum eins og skot. Það er bara eitt verra en að svindla á prófi í háskólum og það er að stela texta!
Annars er það að frétta að það var gott að koma til Íslands um daginn þrátt fyrir að snúa til baka fullur af hori. Það er bara eitthvað svo íslenskt við það. Annað mjög íslenskt var rokið. Jana er svo óvön roki að hún fauk a.m.k. 5 sinnum á meðan við vorum heima. Hún kunni ekkert að stíga á móti vindinum sem lærist öllum sem þar hafa búið. Maður þarf að vera hálf skakkur alltaf :) Er þetta ekki orðið gott?
5 Ummæli:
Mér finnst svo gaman að fylgjast með ykkur í svíþjóð. Gaman að heyra um námið ykkar beggja. Það hefur án efa verið spennandi að vera í þessum "fjölþjóðabekk" sem þú varst/ert í. Þó að ég sé með gott próf í "rokgöngu" þá get ég nú ekki sagt að ég sakni þess mikið að notast við þá hæfileika.
bestu kv. frá sumrinu, án roks, í danaveldi.
já "rokganga" er rétta heitið! Bendi Timberlake á að gera dans úr þessu næst! Þannig að krakkarnir okkar geti lært að ganga á Íslandi í gegnum MTV!
Vá kynjahlutfallið er soldið annað hjá mér.
Það er merkilegt þetta með ritstuldinn, vegna þess að ég átti að lesa yfir 20 ritgerðir fyrir jól og þær sem komu frá Pakistanahópunum fannst mér allar vera vægast sagt mjög slappar og hefðu verið til að fella þá. Stundum var bara búið að taka heilar vefsíður með myndum og öllu og búa til kannski 4-5 blaðsíðu kafla úr því.
Líklega er þetta samt mikill menningarmunur því að þeir sem skrifa þetta eru engir vitleysingar.
Já ég er sammála þér með að þetta er ekki af því að þeir geta ekki skrifað eða nenna því ekki. Þetta er bara ekkert tiltökumál í þeirra huga. Svona álíka og okkur finnst að ná í mp3. En kynjahlutfallið! OMG eins og þær myndu segja:)
Mikið var gaman að sjá ykkur Jönu hér á Íslandi um daginn! Bæði svo glöð og sæt (ég meina auðvitað annars vegar sæt og hins vegar fjallmyndarlegur). Hér er einmitt rok og sól og allir íslendingar að rembast við að finna skjól til að geta sleikt sólina í lopapeysum. Bara sjarmerandi.
Frábært að lesa bloggið ykkar eins og alltaf. Er farin að hlakka til ferðarinnar okkar í sumar og auðvitað að hitta Önnu Sóleyju og Dag.
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim