tölvugerður heimur
Fyrstu 2 vikurnar vorum við allt 4.árið saman á tveimur námskeiðum, arkitektúrsögu og arkitektúrtækni. Í því fyrrnefnda var farið í Búddahof og Hinduhof á Indlandi og annarsstaðar í Asíu. Einnig arkitektúr fornu menningarþjóðanna í mið og suður-Ameríku og að lokum moskur í arabalöndum. Allt mjög áhugavert en eins og svo oft áður höfðar arkitektúr í Indlandi sterkt til mín. Það er greinilega eitthvað sem ég þarf að athuga með því að fara þangað! Minnti mig á hvað það var gaman að skoða Indlandstímabil Corbusiers í verkefni í fyrra.
En semsagt núna eru allir byrjaðir á sínum "sporum" sem eru með mismunandi verkefnum, kennurum, aðferðafræði og námsferð. Ég valdi mér eitt spor sem var fullt og þá var ég sett á biðlista. Ég var sjálfkrafa sett á annað spor sem mér leist hræðinlega illa á í byrjun. En svo talaði ég við nemendur og kennarann og skoðaði þetta allt saman betur og þá snerist þetta eiginlega við. Svo ég er núna hæstánægð með að vera hér í þessum hópi og hlakka til að gera þetta verkefni.
Fyrst um námsferðina. Það lítur út fyrir að hún verði um páskaleytið og trúlega verður farið til Kosovo, það hljómar allavega spennandi. Hinir hóparnir fara t.d. til Istanbul, Indlands, Barcelona og einn hópurinn verður t.d. mánuð í Afríku!!!
Um verkefnin: til páska erum við í verkefni sem fjallar um hvernig arkitektúr birtist í ólíkum miðlum t.d. bókum, tölvuleikjum, bíómyndum, málverkum og hvernig þetta hefur þróast. Það sem hefur t.d. gerst í okkar bransa er að á tiltölulega skömmum tíma breyttust teikningarnar úr handteiknuðum í tölvuteiknaðar. Þetta hefur mikil áhrif á útlit þeirra. Það sem við erum líka að skoða hvaða áhrif þetta hefur á hönnunina sjálfa og hvað forritið sem maður vinnur í hefur að segja í því sambandi. Hluti af því sem hefur t.d. bæst við kynningar á nýjum arkitektúr eru þrívíddarmyndskeið svo hægt sé að "fljúga" inn og út úr byggingum sem eru enn á teikniborðinu.
Tilraunin sem við gerum til páska er að hanna arkitektúr í tölvuveröld á Internetinu. Einn aðalkennarinn okkar er "meðlimur" í leik/heimi sem heitir Second life og er netleikur. Sá leikur gengur út á það að allt sem sést í þeirri veröld er hannað af þeim sem spila leikinn, allar byggingarnar og allt umhverfið. Það kostar ekkert að vera með, maður gerist spilari, "býr til" sinn karakter og getur svo farið að hanna hvað sem maður vill. Þarna eru ca 100.000 manns að spila, fólk frá öllum heimshornum. Kennarinn okkar bjó til eyju fyrir okkur öll og við ráðum hvort við hönnum fyrir okkar eyju eða fyrir samfélagið. Hann er að vona að einhverjir aðrir panti hjá okkur byggingar eins og venjulegir viðskiptavinir. Þarna eru búnar að byggjast upp nokkrar borgir, bókasöfn, skemmtistaðir, videoleigur (þar sem hægt er að fá alvöru bíómyndir eins og á venj videoleigu!), listasöfn, leikjasalir, bingóstaðir, og margt fl. Einnig eru þarna fjölmiðlar og spjallþáttur. Þetta hljómar allt mjög furðulega. Fólk fer í þetta af mismunandi ástæðum, sumir gera sig að allt annari persónu en þeir eru í raunveruleikanum og hegðar sér eftir því. Kennarinn okkar vill frekar líta á þetta sem annan máta fyrir tjáskipti við annað fólk. Hann hefur kynnst fólki og farið á second life ráðstefnur! Hann gerði sig að konu í byrjun og fann strax að fólk talaði öðruvísi við hann en venjulega, svo hann ákvað að vera áfram kona í tilraunaskyni. Semsagt ef einhver vill prófa þá kostar ekkert að fara á secondlife.com og gerast meðlimur.
Þetta verður fróðlegt...
6 Ummæli:
námið hljómar spennandi og kennarinn undarlegur!! hahahehe
Ég bíð spennt eftir sögum af framhaldinu. Sogast Anna Sóley inní tölvuóveruleika og þá í hvaða formi? Þori varla að kíkja á þessa slóð en forvitnin verður líklega óttanum yfirsterkari.......
Þ.
fyrst arkítektapælingarnar þínar nálgast óðum indland langar mig að benda þér á indverskan arkítekt sem skrifar af allt of sjaldgæfum eldmóði og hefur, auk "the god of small things" (sem er það eina eftir hana sem ég á eftir að lesa en er ofarlega á leslistanum), gefið út þrjú greinsasöfn hvert öðru betra. mæli með "an ordinary person´s guide to empire" sem góðri byrjun. tökum ofan fyrir arundhati roy...
orrinn.
mmm takk kærlega fyrir ábendinguna. byrjaði reyndar einhverntímann á bókinni en hún greip mig ekki þá.ætti kannski að prófa aftur.ekki hafði ég hugmynd um að hún væri arkitekt.
Já þetta er sko mjög skondin kennari, "venjulegur" arkitekt á daginn en lifir í óraunveruleika sem hobbý. Aðstoðarmaðurinn hans í vinnustúdíóinu er ungur strákur sem er enn meiri tölvunörd en með hipphopp ívafi...
Jahérna, hvurslags tölvuveröld ertu komin í Anna Sóley. Ég segji nú eins og Þórdís að ég þori varla að kíkja á þessa veröld...veit ekki hvort að forvitnin verði sterkari en óttinn.
Halla
jú jú, roy er arkítekt. af frásögnum vina sem lesið hafa guð hins smáa þykir mér líklegt að hún skrifi mun betri greinar en skáldsögur.
hljómar vel! Indland og cyber-arkitektúr. Þú verður að sýna okkur myndir þegar verkefnið er komið á koppinn.
Ég er farin að hlakka til að byrja á nýrri önn, í næstu viku.
Har det bra, eða hvernig sem maður segir þetta í Svíaríki
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim