Að velja sér hverfi
Eins og komið hefur fram erum við að flytja til Íslands eftir tæpa 2 mánuði. Það er tiltölulega erfitt að koma heim og kaupa íbúð, koma öllum fyrir í skóla og vinnu o.s.fr. þar sem við erum í raun að breyta öllu frá því við vorum heima síðast nema ættingjum og vinum.
En varðandi búsetu þá hefðum við áhuga á að búa miðsvæðis, jafnvel í miðbænum. Við munum búa fyrst um sinn alveg í mesta miðbænum og það verður ágætt að prófa. Það hafa fleiri en 1 eða 2 eða 3 reynt að telja okkur af því vegna þess að ástandið í miðbænum sé slæmt. Mér finnst það bara fallegt því það segir eiginlega að því er annt um okkur. En áhættumat er furðuleg fræði. Ég hef lesið töluvert um það í mínu námi og eins finnst mér það mjög skemmtileg fræði því þetta skiptir höfuðmáli fyrir líf og dauða hjá öllum lífverum að meta áhættur rétt. Allar tegundir eru góðar í að meta áhættur, það er innbyggt í þeim hvort þær eiga að hrökkva eða stökkva eftir að hafa metið aðstæður á augabragði. Mannfólkið hefur hinsvegar búið til svo flókinn veruleika að við getum ekki lengur dæmt um áhættu nema hafa fyrir framan okkur harðar staðreyndir sem er jafnvel mjög erfitt. Allt annað verður bara hlutlægt mat byggt á síðustu fréttum, hvað við þekkjum og hverju við höfum stórn á svo dæmi sé tekið. Gott dæmi um þetta er hræðslan við hryðjuverk er meiri en hræðslan við að keyra sem er minni en hræðslan við að ganga um miðbæinn að næturlagi. Tölfræði mun sýna allt annað. En nóg um þetta þeir sem vilja lesa frábærar greinar um þetta hafi samband við mig.
Ég ætlaði bara að segja að hús okkar hér tilheyrir hverfi sem heitir Runby og er gróið hverfi þar sem margir krakkar eru af 3ju kynslóð búenda. Flestir búa í einbýlishúsum, þokkalega menntaðir og nánast bara "hvítir" Svíar. Þar er enginn miðbær til að tala um heldur er þetta svefnhverfi - kannski eins og ég ímynda mér Mosfellsbæ, reyndar miklu færri fyrirtæki og verslanir en þar. Dagur gengur (gekk réttast sagt) í Runby skólann. Hann er meðalstór með 3 bekkjum í árgangi. Í þessu fyrirmyndarhverfi á sænskan mælihvarða, þar sem hljómsveitin Europe varð til, hefur samt verið nokkuð stormasamt. Núna á þessu ári hefur verið reynt að kveikja í húsum að næturlagi þar sem íbúar sofa og leikskólinn var brenndur til grunna. Í síðustu viku féll drengur í efsta bekk til bana í miðri viku undir áhrifum eiturlyfja, maður var myrtur af 4 mönnum með spörkum og hnífi, í júní réðust 4 drengir á aldrinum 14-18 ára á mann á heimili sínu við hliðiná skólanum um hábjartan dag og börðu hann til bana á hrottafenginn hátt. Maðurinn var bundinn hjólastól og kom engum vörnum við sem gerir þetta ólýsanlega óhuggulegt.
Ætli við hefðum flutt hingað með þessar upplýsingar undir höndum? hvað segja þessar upplýsingar eiginlega - maður getur ekki einu sinni lesið neitt í þetta því það er eiginlega ekkert rökrétt við þetta miðað við lýsinguna á hverfinu. EN - á meðan líkurnar eru ennþá miklu meiri á að slasast/deyja í bíl eða við heimilisstörf eða verða bitinn af hundi, höggormi og elgi á maður ekki að láta svona fréttir hafa áhrif á sig nema kannski á uppbyggjandi hátt gagnvart unglingunum o.þ.h. Ég myndi því ekki flytja hingað aftur en af allt öðrum aðstæðum en þessum.
0 Ummæli:
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim