Sænsk nei
Dæmisaga um Svía. Þessu lendir maður í mjög oft en þessi saga er bara svo svakalega lýsandi fyrir þá.
Manos, Jana og ég vorum að hjóla í Stokkhólmi þegar við ákváðum að setjast á mjög skemmtilegu útikaffihúsi við vatn rétt fyrir utan borgina. Við höfðum lofað Jönu ís svo ég vatt mér að afgreiðsludömunni og bað um ís. "Nei, við seljum ekki ís" svaraði hún af sænskri kurteisi. Við Manos litum í kringum okkur en það var ekki annan stað að sjá. En þar sem við höfðum lofað ís héldum við af stað í leit að ís. Þegar ekkert gekk snérum við aftur á gamla staðinn en mér hafði með lipurð tekist að sannfæra Jönu um að líta á matseðilinn á gamla íslausa staðnum með opnum huga. Kannski leyndist eitthvað jafn gott og ís. Þegar þangað var komið leit ég yfir seðilinn á krítartöflunni og þar stóð skýrum stöfum "Jarðaber með ís". Ég leit á afgreiðslukonuna og spurði í gríni "en áttu nokkuð jarðaber með ís?" og hún svaraði kurteislega játandi án þess svo mikið að blikka augum!
Mig langaði til að spyrja hvort til væru jarðaber. Trúlega hefði svarið verið kurteisilegt nei!
Lærdómurinn er þessi: ekki taka nei fyrir svar í Svíþjóð - það hefur ekki sömu merkingu og í okkar huga. Nei þýðir ekki nei, það þýðir "þú sagðir ekki rétta lykilorðið!" - prófið því allar hugsanlegar samsetningar áður en leitað er annað.
1 Ummæli:
Svíar eru klikk.
Stundum skil ég þá fullkomlega en stundum eru þeir alveg stórfurðulegir.
Skrifa ummæli
Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]
<< Heim