18 desember, 2005

lokaverkefnið

Jæja þá eru lokamínúturnar í lokaverkefninu eftir...allt gengur samt vel.
Hef lengi ætlað að skrifa meira um skólann svo loksins gerist það.

Lokaverkefnið er byggt upp þannig að allir hóparnir fá úthlutað viðskiptavini af svæðinu sem við erum búin að rannsaka í haust, Sundbyberg svæðinu.
Viðskiptavinirnir eru t.d. verktakafyrirtæki, bæjarfélög, fasteignafyrirtæki og svol.
Hver viðskiptavinur fær tvo hópa til að vinna fyrir sig.
Við og einn annar hópur fengum flugumferðarstjórn Bromma flugvallar. Við Sundbyberg er nefnilega þessi Bromma flugvöllur sem er mun minni en Arlanda flugvöllurinn en er samt ekki bara með innanlandsflug. Þeir vilja verða city airport eins og er í London og Berlin. Þeirra leigusamningur er bara til 2011 og eftir það er framtíð þeirra óráðin.
Okkar hlutverk er að gera nýtt skipulag fyrir flugvöllinn, hverfin næst honum og nærliggjandi bæjarfélög.
Við eigum að sýna hvernig er hægt að betrumbæta allt svæðið og gera það byggilegt og aðlaðandi þrátt fyrir flugvöllinn. Þetta snýst um allt sem við erum búin að læra í haust, borgarskipulag, samgöngur, vistfræði, félagsfræði og ekki síst framtíðardrauma.
Þetta geta þeir notað þegar þeir fara í samningaviðræður við Stokkhólmspólitíkusana um framtíð flugvallarins.
(Öfugt við Reykjavík finnst mér að þessi eigi að vera kyrr, enda allt aðrar aðstæður hér og möguleikar.)
Við erum búin að vinna baki brotnu undanfarnar vikur með þessar hugmyndir, búa til ný hverfi, ný göng, nýjar brýr o.s.frv.
Við erum EKKI á síðustu stundu því Svíar eru þannig að þeir vinna JAFNT OG ÞÉTT, eins og klukkur...
það er magnað hvað þetta er innbyggt í þá, þetta er mjög ólíkt Íslendingum.
En ég sé alveg hvað þetta er sniðugt því þá vinnst mikið magn af efni jafnt og þétt og þá er ekki eins mikið stress í lokin. Einföld formúla svosem en stundum erfitt að fylgja henni (nema þegar maður er í hópavinnu í Svíþjóð!).
Við þurfum að skila verkefninu á ýmsa vegu. 6 stk A1 blöð til að hengja upp í salnum, 6 stk prentuð hefti í A3, powerpoint show, og stórt módel af ÖLLU svæðinu í 1:4000. (trilljón pínulítil hús skorin í pappa í 4 lögum).
Þetta tekur mikinn tíma því uppsetningin er mjög ólík á þeim öllum og í sumum tilfellum ekki sama efni heldur nýtt sem hentar þeirri stærð eða þeim miðli.
Já eitt magnað: skólinn borgar alla prentun takk fyrir, það er bara ÓTRÚLEGT! (Sé LHÍ í anda borga Samskiptum)
Allavega, núna á morgun byrja yfirferðirnar. Allan mánudaginn eru kynningar fyrir kennarana, allan þriðjudaginn fyrir sérfræðingana, og á miðvikudaginn förum við út í bæ og sýnum viðskiptavinunum sem um ræðir og pólitíkusunum. Við höfum farið á fundi með flugumferðarstjórn til að tala um okkar hugmyndir og þeirra óskir svo þeir vita ca hvað kemur en það verður gaman að sjá hvað þeim finnst.
Svo það má segja að þetta sé mjög raunverulegt verkefni og það er virkilega skemmtilegt. Einnig finnst mér við hafa verið heppin með viðskiptavin því einhverjir lentu t.d. í því að fá verktakafyrirtæki sem hafði þá einu hugmynd hvernig hægt væri að troða sem flestum á svæðið svo þeir gætu grætt sem mest. Þá er meira spennandi að reyna að finna möguleika fyrir spennandi byggð við hlið flugvallar.

Já eins og ég segi, ef ég væri á Íslandi, væri ég núna að fá taugaáfall úr stressi í skólanum að reyna að klára milljón hluti fyrir kynninguna á morgun, og ætti ekki í vændum neinn svefn. En nei ég er með Svíum, og þar af leiðandi átti ég FRÍ í dag og gat farið niður í bæ með fjölskyldunni minni, og fer bara að sofa á ósköp eðlilegum tíma í kvöld :)

Talandi um Svía samt, það er virkilega erfitt að kynnast þeim...en meira um það næst...

bestu kveðjur, Anna Sóley

p.s. 12 stiga frost í dag brrrrrrrrr!

4 Ummæli:

Þann sun. des. 18, 10:36:00 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

váááá hvað þetta hljómar skipulagt :) maður ætti að tileinka sér þetta!

Verkefnið hljómar líka mjög skemmtilegt..

 
Þann mán. des. 19, 01:31:00 f.h. , Blogger Orri, Þórdís, Eyja og Kári sagði...

já þessir svæiar, það vantar allt adrenalín í þá.

 
Þann mán. des. 19, 02:16:00 f.h. , Blogger Una sagði...

vá hvað þetta er ólíkt... allt á réttum tíma. Get reyndar trúað að Hollendingar séu svona líka, skipulagðir, en þar sem ég er ekki með Hollendingum í kúrs þá held ég mig við íslenska "þetta reddast" viðhorfið. Er líka í hópavinnu með ítalskri stelpu þannig að þetta er svona "sjitturinn" og "mama mia" nokkrum dögum fyrir skil! En hey, hví að breyta því sem virkar? Gangi þér rosalega vel í kynningunni! Una
p.s. öfund út í þig vegna ókeypis prentunar

 
Þann mán. des. 19, 03:50:00 e.h. , Blogger Halla sagði...

já maður hefur heyrt að svíar vanti svolítið power en það að þeir séu svona skipulagðir... ég held að hver íslendingur hafi gott af því að læra það. Gangi þér vel með að skila verkefninu og að það slái svo í gegn að árið 2011 sjáist lítið þorp sem verður tileinkað þér ;o)
kv. halla

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim