27 október, 2006

Eftir meira en eitt ár í Svíþjóð höfum við komist að því að veðrið hér er frábært og svosem nóg búið að tönnlast á því. En það sem hefur líka komið á daginn er að veðrið í Stokkhólmi er alveg sér á báti á jákvæðan hátt. Dæmi: undanfarna 3 daga hefur lítið annað verið í fréttunum en yfirvofandi stormur og óveður sem átti að tröllríða landinu öllu. Í dag beið maður svo spenntur eftir látunum en ekkert annað gerðist en 12 stiga hiti, smá sól og pínu vindur. Svo í kvöldfréttunum komu þvílíkar óveðursfréttir að það jafnaðist á við febrúarofsaveður á Akureyri og allt á kafi í snjó, 30.000 þús heimili í Svíþjóð án rafmagns og vindur 30 m/s í suðurhlutanum. Já, bæðevei, Stokkhólmur slapp við veðrið :)

Fyrir utan að bíða eftir óveðrum sem aldrei koma má segja að við höfum einnig "beðið" eftir hlaupabólu í 2 mánuði. Allir á leikskólanum hafa hver á fætur öðrum lagst niður í bólurnar nema okkar eini sanni SURVIVOR MISS JANA, hún er ein eftir...

Sumir spurja okkur stundum hvenær við ætlum að flytja heim og svol. Hér er ein vísbending : í haust keypti ég mér leikfimikort með ársbindingu. Svo allt okkar framtíðarplan stendur og fellur með þessu hahahaha

Ég hélt mína fyrstu kynningu í síðustu viku á lokaverkefninu. Kennarinn/ "leiðbeinandinn" minn sem mér var úthlutað heitir Páll og hann er í náinni samvinnu við Elísabet og þau bæði hafa ca 6 nemendur hvort um sig. Þetta er gott fyrirkomulag og þau virðast gott tím. Þannig að þau voru bæði viðstödd og ca 12 nemendur. Maður var skítstressaður og reyndi að sýna myndir og kort og útskýra forsendur hugmyndarinnar sem eru menningarlegs-, sögulegs- og tæknilegs eðlis. Það gekk nú bara voðalega vel og meira að segja greip um sig hálfgerður múgæsingur meðal allra um að fara í "skolresa till Island"!!! Svo þetta hefur varla farið svo illa í þau. En það er allavega léttir af ýmsum ástæðum: að hugmyndin var samþykkt að öllu leyti og allar ákvarðanir hingað til einnig, að þau tvö kennararnir virkuðu svo vel á mig og komu mér þannig á óvart þar sem ég hafði ekki valið þau sjálf, og svo að fólkið í hópnum virkaði líka mjög vel á mig. Ég er mjög spennt að halda áfram eftir þetta og veturinn lofar góðu.

Við eigum von á góðum gestum á næstunni, Ásta kemur á miðvikudaginn og verður í 5 daga, svo koma Jónína og Böðvar um miðjan nóvember. Það er sko ekki lítil tilhlökkun á heimilinu og búið að plana svaka dagskrá fyrir fyrsta gestinn allavega.

Hey já muniði eftir að segja Dosta að blogga um nýjasta verkefnið hans sem gæti leitt hann á glænýjan starfsvettvang, ein vísbending...Helsinki 2007...(múhahaha)

AS

25 október, 2006

Framandi menning? eða...

Það var Grikki í heimsókn hjá okkur um daginn. Við erum orðnir ágætir vinir í skólanum svo við buðum honum og nokkrum öðrum skólafélögum í mat. Við náttúrulega löguðum dýrindis íslenskan mat, höfðum allt tipp-topp og skörtuðum öllu því íslenskasta (eins og íslendingar í útlegð gera)...en það sem honum fannst merkilegast við heimilið okkar voru gluggakrækjurnar :)

20 október, 2006

Must be love

Sleppum öllum nöfnum til að hlífa viðkvæmum sálum ;)


sonur: "Hæ, það eru 2 stelpur að koma í heimsókn til mín"
...
sonur: "pabbi...ertu veikur?"
pabbi: "Ha? nei, ég er ekki veikur, akkurru?"
sonur: "þú ert bara í svo skrítnum fötum, geturðu nokkuð skipt?"

ekki man ég eftir að ég hafi sagt þetta eða þurft að segja þetta nokkurn tíman við foreldra mína...kannski var bara meiri klassi yfir þeim en sumum ;)

17 október, 2006

20 ára!

það kom eins og köld vatnsgusa framaní mig að við eigum 20 ára útskriftarafmæli úr Réttó. Af því tilefni set ég hingað tvær myndir sem sýna annarsvegar að karlmenn geta gengið um með semelíusteina-medalíu eins og ekkert sé og mér finnst þeir ættu að gera það í ríkari mæli. Hin myndin sýnir nafnnúmerið mitt ef einhver vill falsa passann sinn! 9.EÓ lifi!



10 október, 2006

Tannlæknasaga



Tannlæknar eru einn furðulegasti hópur sem ég hef kynnst, ég hef sagt sumum frá því þegar ég fór til tannlæknisins sem var búinn að missa röntgenleyfið og lýsti með vasaljósi í gegnum tennurnar mínar. Ég var því alveg tilbúinn að fara í mjög jákvæða tannlæknareynslu þegar mér bauðst að fara til tannlæknis Karls Gústafs Svíakonungs. Auðvitað er sú stofa á herragarði í miðjum Stokkhólmi (sjá www.wagnshuset.se/)

Kóngurinn okkar (leigusalinn okkar) var búinn að segja mér að ég þyrfti að vera tilbúinn með nokkra brandara því tannlæknirinn elskar að gantast. Helst þyrfti ég að vera með einhvern grófan á takteinunum. Þá strax vissi ég að ég var kannski ekki að fara á réttan stað, en ég virti af vettugi öll hættumerki, og þau urðu fleiri sem ekki tekur að rekja hér. En þegar ég hitti tannlækninn bjóst hann svo mikið við einhverju gullkorni frá mér að hann tók bakföll þegar ég heilsaði kurteisislega. Alveg sama hvað ég reyndi að tala við hann á sænsku talaði hann við mig á Texas-Ammrísku og alltaf skein í lygilega samstillta tannstellið hans sem fór mjög vel við teygðu húðina í kringum augun. Það merkilega við þessa tannlæknastofu er að það er svo fínt þarna (fáar græjur en voða elegant) að svona skyrp-vaskur passar ekki alveg inn. Það er því ekki hægt að skyrpa fyrr en eftir heimsóknina. Það er ótrúlega óþæginlegt eins og fólk getur ímyndað sér.

Erindi mitt við tannlækninn var fyrst og fremst að láta hreinsa tennurnar og bara tékka hvort ekki væri allt í lagi. Ég hef ekki fundið stakan verk í tönnunum í mörg ár. Hann sendi mig beint í röntgen og spjallaði við mig í 1000 desibela tóntegund á meðan á framkölluninni stóð. Ég var pínulítið hissa á að hann skyldi ekki nota tímann til að hreinsa tennurnar. Síðan skoðuðum við saman myndina og sáum ekkert markvert. En hann vildi samt fá mig aftur til að pota í þær. Ég tók nú ekki vel í það en minnti hann á að það ætti eftir að hreinsa tennurnar. Hann horfði á mig eins og ég hefði sagt eitthvað hræðilegt um ömmu hans. Hann hélt nú ekki! Aðstoðarmaður hans myndi vinna skítverkin. En aðstoðarmaðurinn átti ekki tíma þennan dag. Af algjörri tilviljun átti aðstoðarmaðurinn og tannlæknirinn samhliða tíma viku síðar. Svo ég neyddist hálfpartinn til að panta líka hjá tannlækninum í tannapot. Þegar ég kom í þessa heimsókn var auðvitað hreinsarinn veikur svo ég fór bara í tannapot. Þegar hann var að kroppa í jaxlinn á mér festist eitthvað kropptólið sem hann sagði að væri ekki gott merki. Ég þyrfti að koma aftur til að láta laga það. Þegar maður getur ekki skyrpt getur maður ekkert sagt svo ég lét mig hafa það að tannsi bókaði annan tíma.

En þá er komið að deginum í dag. Ég fór í morgun í viðgerð á tönninni sem var örugglega stálhraust fyrir. Hann sagði mér að það væri möguleiki á að tönnin mín væri dauð svo hann vildi prófa tilfinninganæmni hennar áður en hann deyfði. Ég sagði að það væri nú allt í lagi, (ég þoli nú alveg smá kropp í viðbót) en hann hafði aðrar hugmyndir og byrjaði að bora!!! Ég öskraði upp en tannsi og klínikdaman skelltu upp úr bæði í kór og sögði eins og samhæft skautapar “NO! It’s not dead!”.

Svo fyllti hann tönnina með einhverju plasti sem hann sagði að myndi endast til vors. Þá yrði ég að ákveða hvort ég vildi fá gull eða postulín. Það kostar 95.000, ofaná þetta ævintýri. Ég kvaddi hann og sagði að ég myndi hringja í vor. Ég á enn eftir að láta hreinsa í mér tennurnar. Núna er ég með tannpínu og hausverk!

Af hverju lærir maður ekki?
Dosti