17 nóvember, 2006

Elís

Um síðustu helgi fórum við í 99 ára afmælisveislu Elís nágranna okkar. Hann hefur búið hér á Runsa allt sitt líf, foreldrar hans voru vinnumenn hér og það var hann líka. Eiginkona hans var einnig vinnukona hér frá unga aldri og eiga þau saman son sem er ellilífeyrisþegi í Bandaríkjunum. Eiginkonan dó fyrir um 7 árum en þá hafði hann aldrei eldað á ævinni eða séð um heimilið svo neinu nemi. En hann tók sig til og lærði það og fór létt með. Hann keyrir að vísu í bæinn (um 8 km leið) á gamla Volvoinum til að fá sér hádegismat og við höfum lært að vera ekkert á ferðinni í kringum hádegisbilið og eiginlega eru vegirnir alveg auðir á meðan von er á honum. Hann er þó sérlega hraustur, hefur aldrei tekið pillur, ræktar kartöflur og tómata í garðinum og gengur um í Nike skóm sem við sjáum hann stundum beygja sig niður til að reima. Í afmælisveislunni bauð hann öllum upp á vín og öl og það var hart tekið á drykkjunni. Hann skálaði fyrir gestunum og svolgraði viskíinu í einum sopa eins og kúreki á knæpu. Gömlu konurnar gerðu athugasemdir við drykkjuna en hann þykist vera með slæma heyrn þegar þannig stendur á.

Í sumar þegar hann var á leiðinni að sækja son sinn út á flugvöll leist mönnum auðvitað ekkert á það því eðli málsins samkvæmt er flókið að keyra um flugvallasvæðið. Þegar honum var boðið far neitaði hann staðfastlega og upplýsti galdurinn sem hann hefur notað undanfarin ár. Hann keyrir út á flugvöll og tekur bara einhverjar akreinar sem stefna að aðalinnganginum og þar leggur hann fremst hjá leigubílunum. Þegar vegfarendur æsa sig yfir aksturslaginu og stæðavalinu leikur hann bara gamlan vitlausan mann sem ekki er hægt að æsa sig við.

3 Ummæli:

Þann lau. nóv. 18, 12:56:00 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

Sniðugur þessi kall, lætur bara ekkert stoppa sig :) Er að hugsa um að setja ykkur á msn hjá mér, veit bara ekki slóðina þú kannski segir mér hana .Kveðja Ella

 
Þann lau. nóv. 18, 12:57:00 e.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

p.s bið að heilsa m&p.

 
Þann sun. nóv. 19, 10:27:00 f.h. , Anonymous Nafnlaus sagði...

hæ! netfangið er himbrimi hjá hotmail.com! við skilum kveðjunum og endursendum. M&P koma ekki heim fyrr en veðrið fer að skána.

 

Skrifa ummæli

Gerast áskrifandi að Birta ummæli [Atom]

<< Heim