28 ágúst, 2005

ahh búið :)

Það gekk bara vel í prófinu, held ég. Á meðan námskeiðinu stóð bjóst ég alveg eins við því að ég myndi ekki ná því og þurfa þá að taka það aftur í desember því það er hálfgert brjálaði að læra þessa málfræði og orðaforða á einum mánuði. En nú er ég bara bjartsýn á að hafa náð. Ég er líka svo fegin að vera komin með þennan grunn fyrir námið sem byrjar á þriðjudag. Munnlegt próf líka búið og 4 ritgerðir.
Það var vel þegið að fá mánudaginn í frí enda verður bara púl þaðan í frá.

Við Jana fórum áðan í skógarferð og hittum marga maura sem voru líka í skógarferð, það fannst henni merkilegt.
Dosti og Dagur fóru á hjólum í tölvubúð og þeir verða vel þreyttir þegar þeir koma til baka, en þeir virðast hafa mikið úthald báðir á hjólunum. Ég fór t.d. á hjólinu að leikskólanum um daginn sem er 1/3 af þessari leið og var gjörsamlega úrvinda eftir það svo ég þarf greinilega að gera eitthvað í líkamsræktarmálum hehe.

Í gær komu nágrannahjón til okkar í spjall og það var mjög fínt. Hann er tölvunarfræðingur og ætlar að hjálpa Dosta að semja aðlaðandi starfsumsókn. Hann sjálfur lenti í ógöngum því hann starfaði við það að ganga tímabundið inn í fyrirtæki sem stjórnunarráðgjafi til að taka allar óvinsælu ákvarðanirnar eins og að segja þeim upp sem eru óþarfir. Eftir slátrunina fór hann svo í næsta fyrirtæki eins og stormsveipur.
Þetta gerði hann lengi en gekk alveg frama af sér og allt álagið lagðist á hann af fullum þunga þar til hann varð veikur og óvinnufær. Hann hefur verið í starfsleyfi í eitt ár og verður áfram lengi í viðbót til að ná sér. Agalegt. En allavega hann hefur ferðast út um allan heim og við vorum mikið að tala um ferðalög og mismunandi lönd, rosa gaman. Hann fer t.d. í 6 vikur í vetur til Indlands, vá. Konan hans er algjör hestamanneskja, hún á 3 hesta hér í hesthúsinu, stórir kappreiðahestar. Jana og Dagur kíkja stundum til hennar í hesthúsið og fá að klappa hestunum. Hún er reyndar lögreglustjóri Upplands Vasby bæjarins! Fyndin hjón.

Eitt skondið hérna, það er allt annað tímatempó í gangi hér. Ef maður hittir einhvern hér úti og byrjar að spjalla þá veit maður ekki fyrr en liðin er einn og hálfur tími. Eins þegar fólk kemur þá eru það margir klukkutímar sem fljúga, í gær t.d. varð litla innlitið að 4-5 klst heimsókn.
Okkur finnst þetta bara gaman en við erum búin að sjá að það þýðir EKKERT að plana nokkurn skapaðan hlut því alltaf umturnast allt.

bæó AS

26 ágúst, 2005

sænskuprófið!!!

Jæja þá er komið að því...stíft námskeið að baki og prófið í fyrramálið kl 9 og er til kl 13.
Hallarhjónin eru búin að bjóðast til þess að keyra mig út á lestarstöð kl 7:20 svo ég nái lestinni 7:43, það er nefnilega ekki strætó héðan svona snemma um helgar...aldeilis heppin að fá það boð. Eins og Karl orðaði það í dag: "you need to concentrate on your test and not how you get there!", það vantar ekki hugulsemina.
Svo ég sit hér sveitt og beygi sagnir og annað skemmtilegt.

Dosti hefur verið mikið á Harva leikskóla með Jönu en í dag t.d. var hún ein milli kl 9 og 14. Hún grét þegar hann fór en okkur skilst að hún hafi svo jafnað sig fljótt og allt gengið voða vel. Hún borðaði þar og svaf og allt gekk þetta vel. Hún er búin að segja sína fyrstu setningu á sænsku því hún sagði við okkur í gær "Ann (fóstran) sagði við mig, pappa kommer snart"! Ekki nóg með það heldur er hún búin að læra eitt lag á sænsku.

Kveðja í bili, Anna Sóley

23 ágúst, 2005

Heimsókn

Jæja, nú er 6 daga heimsókn Jónínu og Böðvars á enda. Það var rosalega gaman að hafa þau hjá okkur og margt skemmtilegt brallað! Ætli það verði ekki einmitt þannig að þegar gestir koma þá loks gefur maður sér tíma til að skoða eitthvað, svo það er alveg nauðsynlegt að fá gesti af og til :)
Á sunnudaginn fórum við saman í smá ferðalag að skerjagarðinum og það var alveg yndislegt þar. Litlar eyjar og hólmar út um allt og allar tegundir og stærðir af bátum að sigla í allar áttir. Fengum okkur mat á litlum stað við ströndina í sumarblíðunni. Fórum til baka í bílaferju...
Svo notuðum við Jónínu óspart til að innrétta hjá okkur því einhverra hluta vegna erum við hjónin ómöguleg í að raða húsgögnunum okkar sjálf! Nú fyrst er allt að verða fínt og kósí, TAKK Jónína!
Nú eru 2 skóladagar búnir hjá Degi og hann virðist bara mjög ánægður. ÞUNGU fargi af okkur létt með það. Ætli hann segi ekki betur frá skólanum á síðunni sinni www.folk.is/dagurebe/
Honum finnst krakkarnir stilltari en þeir íslensku! Honum gekk vel að skilja þegar var stærðfræði í dag en ekki eins vel í t.d. landafræði. Svo byrjaði hann í frönsku í dag og tautar í sífellu je m appelle Dagur, je m appelle Dagur, trés bién...hehe selaví
(stelpur muniði la plass de la konkord la bísíklett de klodett, tjést la ví!!!)
Allavega þetta byrjar vel í Runby skolan.
Meðan ég man, það þarf ekki að koma með ritföng, liti, bækur eða nesti, það er allt til fyrir þau, og strætókort líka. Hann fær bráðum skáp og finnst það dáldið sport.
Það gengur eitthvað erfiðlega að setja inni myndir og þær hrannast upp hjá okkur, vonum að það rætist úr þessu vandamáli.
Bestu kveðjur, AS

22 ágúst, 2005

Stór dagur hjá Degi!

Hæ hæ,

í dag stekkur Dagur beint ofan í djúpu laugina því áðan kl 8:20 byrjaði hann í skólanum!!!
Svo það verða allir að senda góða strauma til hans og vonum bara að þessi fyrsti dagur verði góður fyrir hann. Hann er búinn kl 14 og ætli ég verði ekki með í maganum þangað til...

kv.AS

19 ágúst, 2005

Loksins blogg

Hæ hó,

það er nú meira hvað er erfitt að finna tíma til að fara í tölvuna...ég hugsa nú að þetta muni lagast í vetur þegar skólinn fer á fullt og maður verður meira í tölvunni, þá kemur reglubundið blogg.
En allavega nú kemur eitthvað og svo myndir á morgun.

Eftir slatta af rigningu kom sumarið aftur og veðrið er búið að vera rosa gott undanfarið, hiti frá 20-27 stig, mjög þæginlegt. Og spáin er góð framundan jeiii!
Foreldrar Dosta komu 17.ág. og verða til 23.ág. Það er auðvitað frábært að fá þau og við njótum þess að slæpast um borg og bý með þeim. Við höfum einmitt ekki gefið okkur neinn tíma í það fyrr en nú með þeim og það var kærkomið.
Undanfarna tvo daga hafa þetta verið þannig að ég fer í skólann um morguninn, Dosti fer með Jönu í aðlögun á leikskólann og svo hittumst við öll og foreldrar Dosta niður í bæ þegar ég er búin um kl 13. Á morgun ætla hertogahjónin :) að bjóða okkur í bátsferð til Sigtuna (gamla höfuðborg Svíþjóðar) sem er eins og Stykkishólmur, gamall og vinalegur bær með sjarmerandi götum og kaffihúsum.
Við ætlum að vera út í garði fyrir hádegi og háma í okkur brönsj og sleikja sólina.
Við líðum svo sannarlega ekki matarskort hér því eplatrén í garðinum eru að bresta undan eplunum um þessar mundir og við höfum bókstaflega ekki undan að tína þau saman. Svo seinna í haust munu perurnar koma og sveppirnir. Í húsinu við hliðina á okkur er merkilegur nágranni, það er hinn 98 ára gamli Elis. Hann er feykihress og keyrir enn daglega út um allar trissur. Ekki nóg með það heldur hefur hann hamast í kartöflugarðinum sínum síðan við komum og færði okkur einmitt stóran hlut af uppskerunni! Svo við keppumst við að finna upp nýja epla og kartöflurétti!!! Ekki amalegt!
Já með leikskólann, ég gleymdi að segja að það gengur rosa vel og í dag borðaði hún í fyrsta sinn með þeim, og borðaði víst yfir sig eftir því sem Dosti sagði. Þetta er mjög skemmtilegur leikskóli, mikil náttúra og pláss og húsið meira eins og heimili frekar en "skóli". Skógur og vatn rétt hjá og mikið farið í göngutúra.
Það fyndna er að aðalfóstra hennar Jönu heitir Ann! Eins og önnur hver kona hér-eða réttara sagt ALLAR konur hér!
Hertogakonan heitir líka Ann, ég er Anna sóley, mamma Feliciu hér á Runsa heitir Anne Lie, og svo eru tvær Ann eða Anne eitthvað í viðbót hér í Runsa þyrpingunni, allar eru þær í húsum rétt hjá okkur!!!!!
Þetta er nú eitthvað furðulegt! Það er kannski bara rétt að Svíar séu skipulagðir, þeir setja allar Önnurnar saman, sniðugt :)
Við fórum á stressandi og skondin fund í Runby skolan að ræða skólaferil Dags. Þar voru skólastjórinn, konrektor og einhver deildarstjóri. Þau töluðu öll sænsku við okkur og töluðu hratt og óskýrt. Við Dosti áttum fullt í fangi með að "vera með"...úff
En einhvernveginn hafðist þetta og niðurstaðan er þessi: Dagur (greyið) fær 3 vikur til að sanna sig í sænskunni. Þá verður aftur svona fundur og staðan metin. Ef honum gengur ekki nógu vel með málið þá er hætta á að hann þurfi að fara í annan skóla sem allir útlenskir krakkar fara vanalega í. Vonandi kemur nú ekki til þess. Við viljum það helst ekki því þá þyrfti hann síðan að skipta aftur yfir eftir nokkra mánuði og það er bara meira vesen fyrir hann. Og þar læra krakkarnir bara sænsku og dragast aftur úr með allt hitt. En jæja vonum það besta. Hann er pínu stressaður yfir þessu greyið, erum samt að reyna að hafa ekki pressu.
En góðu fréttirnar eru að við erum búin að fá upplýsingar um það að bekkurinn sé mjög góður og kennarinn frábær svo það er ástæða til að kætast.
Ég ætla að stoppa hér núna, segja frá öðrum málum næst...og myndir fljótt, ég lofa.

knús frá okkur Anna Sóley

04 ágúst, 2005

Þorpið


DCP_5681small
Originally uploaded by Anna Sóley.
Húsin hér í kringum höllina eru nokkuð mörg og mynda einsskonar míkróþorp. Aðeins er búið í sumum þeirra en önnur eru notuð sem geymslur eða hesthús. Öll eru mjög falleg. Þessi hús eru dæmi um það.

Garðurinn


DCP_5652small
Originally uploaded by Anna Sóley.
Hér er garðurinn okkar og við hliðið í endanum er Jana. Þangað förum við í vetur í skúrinn að sækja eldivið.

Konungshjónin


DCP_5622small
Originally uploaded by Anna Sóley.
Þetta eru vinalegu konungshjónin í höllinni sinni og Jana ruggar sér á mörghundruð ára gömlum hesti.

Hæ allir saman

Jæja, þá erum við komin í sæluna í sveitinni. Þetta er algjör draumastaður, eins og að vera staddur í Astrid Lindgren ævintýri!!! Við erum með risa garð sem er sleginn fyrir okkur hahaha...einhver hefur gefið þeim hint áður en við komum:)

Gámurinn kom fyrir helgi en var einum degi of seinn. Konungsfólkið reddaði málunum eins og í öllu.

En það sem mestu máli skiptir er að konungsfólkið (sem er auðvitað alls ekki konungsfólk) er yfirmáta vingjarnlegt við okkur. Þau gera miklu meira fyrir okkur en við þurfum. Þau eru sem sagt alltaf einu skrefi á undan okkur. Ætli það sé ekki svona 1:milljón á að hitta á svona fólk...svo ekki sé talað um á svona stað.

Dagur féll strax inn í krakkahópinn. Þeir eru aðallega 4 strákar saman en svo eru 2 stelpur á þeirra aldri líka. Þeir spila golf allan daginn ef þeir eru ekki að hjóla í skóginum eða að veiða í vatninu.

Við höfum fengið afnot af litlum árabáti með utanborðsmótor svo við munum geta veitt í soðið á næstunni. Við erum með okkar eigin kofa sem eldiviðurinn er geymdur í og hann er alveg eins og kofinn hans Emils.

Nú svona að lokum í þessari umferð þá buðu konungshjónin okkur í bátsferð á spíttbátinum sínum (sem er geggjaður) til Sigtuna í kvöldverð í gær. Þvílíkt líf!!!

Bestu kveðjur og söknum allra.

KOMIN!

Hæ, við erum komin og búin að fá gáminn og allt er stórkostlegt. Við vorum að fá mjög hæga internettenginu þangað til við fáum ADSL. Setjum inn þessar myndir til að byrja með og skrifum meira í kvöld.

kveðja,
Stokkhólmsfarar.

Strákarnir


DCP_5669
Originally uploaded by Anna Sóley.
Hér eru Phillip, Andreas, Oscar og Dagur að gera sig tilbúna fyrir veiðiferð


DCP_5676
Originally uploaded by Anna Sóley.
...og sigla á báti út á Mälaren vatnið.

Stelpurnar


DCP_5655
Originally uploaded by Anna Sóley.
Hér eru Jana, Josefin og Felicia í garðinum okkar.

Útsýni úr höllinni


DCP_5635
Originally uploaded by Anna Sóley.
Hérna er útsýnið úr höllinni við hliðina á okkur.

DCP_5615


DCP_5615
Originally uploaded by Anna Sóley.