30 nóvember, 2006

Framtíðarmynd



Við Anna Sóley og Dagur leigðum myndina Firewall með Harrison Ford um daginn. Þetta er mynd þar sem Harrison leikur tölvuöryggissérfræðing og eiginkona hans (Virginia Madsen) er arkitekt og saman eiga þau stelpu og strák, það hljómar nokkuð kunnuglega eða hvað? Þau bjuggu í einhverri svaka flottri villu og lífið virtist leika við þau. Dagur ljómaði alveg fyrstu mínúturnar á meðan hann ímyndaði sér að hann væri að horfa á mynd um framtíð okkar. En það breyttist fljótt upp í martröð þegar vondu mennirnir stormuðu inn í húsið og tóku alla í gíslingu og pabbinn (ég) þurfti að hefjast handa við að brytja niður einn af öðrum með berum höndum.

Núna væri hann alveg til í að ég færi að læra eitthvað allt annað annað, kannski matreiðslu eða danskennslu?...Ef eitthvað er að marka myndina sýnist mér ég gæti farið að kenna sjálfsvörn!

26 nóvember, 2006

Héldum upp á afmæli Ástu meðan hún var hér, hún er svo fín með kransinn að við hefðum hæglega getað breytt þessu í brúðkaup ef við hefðum verið í þannig stuði.

Að því tilefni borðuðum við dádýr, og takið eftir danska "til lykke" borðanum:)

Við Ásta.

Við á Sahara, líbanska staðnum.

Sara og Ásta

Héldum arabísk matarboð í haust. Hér er Dosti, Stefán og Bergur. Einnig voru Ragga, Lóa og Björn og auðvitað allir krakkarnir. Fordrykkur út í garði og svo matur inni...

Jana, Haraldur og Rúna Lóa að smakka á arabíska matnum.

Jana og Haraldur.

vinkonurnar Josefin, Felicia og Jana.

Mynd sem Sara tók á Runsa.


Rasma og Sara.

Til vinstri er Rasma Arabi, hún er frá Litháen með þetta ansi skemmtilega nafn, svo Manos sem er þaulæfður gítarleikari, Martinio frá Brasilíu, og stelpan hennar Rösmu að spjalla við Söru frá USA.

Fyrir neðan eru myndir frá október.

1


4
Originally uploaded by Anna Sóley.
1

1


5
Originally uploaded by Anna Sóley.
1

-


6
Originally uploaded by Anna Sóley.

3


3
Originally uploaded by Anna Sóley.


2
Originally uploaded by Anna Sóley.

1


1
Originally uploaded by Anna Sóley.

-



Originally uploaded by Anna Sóley.
Allur leikskólinn hennar Jönu. Hún er fremst fyrir miðju í bleiku með Magneu dúkku í fanginu.

sumarið er að koma!

Jæja loksins hundskast ég í bloggið...og þá er ýmislegt skemmtilegt frá haustinu sem ég þarf að rifja upp. Ásta kom náttúrulega fyrir nokkrum vikum og það var rosa gaman að þvælast með henni og spjalla. Það byrjaði nú illa því daginn sem hún kom skall á MESTA óveður sem við höfum upplifað hér í Svíþjóð, hríð og snarvitlaust veður. Við Ásta ætluðum svosem ekkert að láta það trufla skipulagið og ætluðum að skreppa í bæinn eftir hádegi en þá sagði Dosti stopp! Það var nú líka eins gott því allir þeir sem höfðu verið svo vitlausir að fara þangað voru strandaglópar, lestarnar hættu fljótt að ganga og allir þurftu að gista á aðalbrautarstöðinni. Svo í staðinn vorum við heima og bökuðum pizzur. Við höfðum "stelpudag" með búðarrápi og indverskum mat, voða gaman. Eitt kvöldið elduðum við dádýr og það var nú meeeeeira lostætið vááá. Annað kvöld fórum við með Manosi og Söru á líbanskan stað þar sem við fengum 18 mismunandi rétti og eftir það á skemmtistað á söder. Þannig að það má alveg segja að þessir dagar hafi verið mjög vel skipulagðir út frá matarveislum, og þannig á það að vera:)

Eftir að Ásta fór kom góða haustveðrið aftur til baka (!), og t.d. í dag stóðum við út á tröppum í sól og 11 stigum og það var ALVEG eins og sumarið væri að koma AHHH...ég trúi því þangað til annað kemur í ljós. Foreldrar Dosta komu svo síðustu helgi og það var líka rosa vel heppnað. Þau komu með lambakjöt og við gerðum íslenska veislu úr því. Þau komu reyndar eins og ekta jólasveinar með ýmislegt jólaleyndó, bæði vökvakyns, matarkyns og pakkakyns jibbí! Með þeim var haldið púttmót í stofunni og spilað pictunary og farið á matarmarkað.

Eftir að við elduðum fiskinn fyrir skólafélaga Dosta þá ákvað einn úr hópnum, grikkinn, Manos, að bjóða okkur upp á grískan kvöldverð. Hann bauð semsagt okkur, Söru amerísku, Martinio frá Brasilíu, og einum auka grikkja. Mér fannst nú bara aðdáunarvert að geta eldað einn þríréttað handa okkur öllum í þessu agnarsmáa "eldhúsi" í pínulitlu stúdíóíbúðinni með takmörkuð áhöld. Þetta var rosa gott hjá honum auðvitað og eftir matinn dró hann upp svakalega klakamaskínu og framleiddi stanslaust tekíla sönræs í gestina...
eitthvað fannst honum eftir á þetta hefði ekki verið nógu höfðinglegt af sér og sagði " I am a much better host at Serifos"! Hann er ættaður af eyjunni Serifos en býr í Aþenu. Hann er alveg æstur í að við komum næsta sumar til hans til eyjarinnar þar sem hann segist vilja lána okkur hús, hljómar nú ekki illa.

Skelltum okkur á Sufjan Stevens um daginn og það kom mjög skemmtilega á óvart, virkilega skemmtilegir tónleikar. Skondið að daginn eftir talaði ég við Þórdísi í síma og þá var Orri akkúrat út á velli að sækja Sufjan...

Það gengur svona sæmó með verkefnið, ég er svolítið að panikka yfir tíma, finnst svo stutt eftir. Fyrir stuttu var workshop með módelsérfræðingi og ég fékk pínu sjokk þá. Það eru svo miklar kröfur með módelin, bæði með efni og frágang, og ég er svo ferlega ekki sleip í þeirri deild...því miður. (Hefði t.d. ekkert á móti því að fá pabba lánaðann í nokkra daga í janúar til að smíða trémódel!)

Svo vorum við í smátíma að gæla við að kíkja til Íslands, svo margar góðar ástæður til að láta slag standa. En þá fékk ég sent skipulagið varðandi lokaverkefnið, og fékk aftur panikkstraum í mig, svo við segjum bara "á næsta ári...".

Planið er semsagt svona, tvær yfirferðir fyrir jól, ein beint eftir jól, senda teikningar til dómnefndar um miðjan janúar, klára módelin, lokakynning á verkefninu 6.-8. febrúar!!! Svo jólin verða svolítið skrítin núna en við tökum þau bara með trompi á næsta ári:)

AS

24 nóvember, 2006

Túlkunaratriði

Það getur oft komið sér vel að búa í landi þar sem maður skilur ekki alveg tungumálið. Öll vafaatriði getur maður túlkað sér í hag. Það koma nánast daglega upp svona atriði sem maður skáldar í eyðurnar. Oft fáum við bréf frá einhverri stofnun og maður sér tölur og talað um peninga og maður bara túlkar það sem nú séu ókeypis peningarnir á leiðinni til manns. Síðan bíður maður og bíður að vísu og engir peningar koma, en hvað stóð í bréfinu veit enginn. Þetta er kannski ekki besta dæmið um jákvæða mistúlkun en manni líður engu að síður vel á meðan von er á peningunum:) Síðasta mistúlkunin var vegna þess að Jana er að fara á kvöldvöku í leikskólanum þar sem börnin mega svo sofa ef þau vilja. Við fengum minnislista yfir það sem við eigum að koma með:

sovsäck
kudde
tandborste
pyjams
eventuellt en föräldrer

og á síðasta atriðinu "eventuellt en föräldrer" kom upp möguleiki á túlkun. Það skipti svolítið miklu máli hvort foreldri eigi að fylgja eða helst ekki. Ég get t.d. ekki fylgt með þetta kvöld enda las ég því eventuellt sem eins og eventuality sem er enskan yfir "hugsanlegan atburð". Þannig túlkaði ég þetta þá sem "ef foreldrar endilega vilja mega þeir koma". Anna Sóley las þetta hinsvegar sem foreldrar ættu helst að koma með sem þýddi hinsvegar að það lendi á henni að fara. Hún hefði átt að nota mína túlkun og senda Jönu eina;) En það er túlkunaratriði.

17 nóvember, 2006

Elís

Um síðustu helgi fórum við í 99 ára afmælisveislu Elís nágranna okkar. Hann hefur búið hér á Runsa allt sitt líf, foreldrar hans voru vinnumenn hér og það var hann líka. Eiginkona hans var einnig vinnukona hér frá unga aldri og eiga þau saman son sem er ellilífeyrisþegi í Bandaríkjunum. Eiginkonan dó fyrir um 7 árum en þá hafði hann aldrei eldað á ævinni eða séð um heimilið svo neinu nemi. En hann tók sig til og lærði það og fór létt með. Hann keyrir að vísu í bæinn (um 8 km leið) á gamla Volvoinum til að fá sér hádegismat og við höfum lært að vera ekkert á ferðinni í kringum hádegisbilið og eiginlega eru vegirnir alveg auðir á meðan von er á honum. Hann er þó sérlega hraustur, hefur aldrei tekið pillur, ræktar kartöflur og tómata í garðinum og gengur um í Nike skóm sem við sjáum hann stundum beygja sig niður til að reima. Í afmælisveislunni bauð hann öllum upp á vín og öl og það var hart tekið á drykkjunni. Hann skálaði fyrir gestunum og svolgraði viskíinu í einum sopa eins og kúreki á knæpu. Gömlu konurnar gerðu athugasemdir við drykkjuna en hann þykist vera með slæma heyrn þegar þannig stendur á.

Í sumar þegar hann var á leiðinni að sækja son sinn út á flugvöll leist mönnum auðvitað ekkert á það því eðli málsins samkvæmt er flókið að keyra um flugvallasvæðið. Þegar honum var boðið far neitaði hann staðfastlega og upplýsti galdurinn sem hann hefur notað undanfarin ár. Hann keyrir út á flugvöll og tekur bara einhverjar akreinar sem stefna að aðalinnganginum og þar leggur hann fremst hjá leigubílunum. Þegar vegfarendur æsa sig yfir aksturslaginu og stæðavalinu leikur hann bara gamlan vitlausan mann sem ekki er hægt að æsa sig við.

08 nóvember, 2006

Svona verður maður glæpon!

Einn Svíi á sér þann draum að slá í gegn í Eurovision. Við þekkjum hann vel og hann hefur reynst okkur hin mesta hjálparhella á meðan við höfum búið hér. Hann hefur alltaf verið fyrstur til að bjóða fram hjálparhönd, jafnvel áður en við vissum að við þyrftum á aðstoð að halda. Nú hefur hann beðið um lítinn greiða, og svona verður maður glæpon!

Hann hefur samið nokkur Eurovisionlög, öll nákvæmlega 3 mínútur að lengd, sum alveg frá árinu 1970 eða jafnvel fyrr. Við höfðum talað lauslega um að ég myndi aðstoða hann við að senda þetta inn í íslensku undankeppnina því hann tók eftir því í vor að standardinn á Íslandi var ekki hár. Auglýsingin eftir lögum hefur verið birt og þegar ég les yfir reglurnar þá eru nokkrar hindranir í veginum.

Höfundur lags og texta þarf að vera búsettur á Íslandi eða með íslenskan ríkisborgarétt. Fyrir Svíanum er það engin hindrun, þetta verður bara í mínu nafni! – OK segjum að við myndum fallast á það brot sem er harla ólíklegt. Þá benti ég honum á að textinn þyrfti að vera á íslensku. Það fannst honum nú lítið mál, ég þyrfti bara að snara honum yfir á íslensku fyrir hann. Textinn gæti verið um einmanna hval syndandi milli Grænlands og Íslands í leit að týndum ástvinum! (Ég er ekki farinn að grínast enn...:) – OK segjum að ég fallist á þetta líka þá spurði ég hann hvern hann hafði hugsað sér að syngja lagið – jú hann gæti það alveg sjálfur ef ég treysti mér ekki í það! Ég lagði fyrir hann nokkrar framburðaþrautir eins og “hvalirnir syngja söng” og “Mörður stöðumælavörður” – það hafði ekkert að segja, honum fannst hann komast ágætlega frá þessu.

Nú er ég byrjaður að semja textann...hvað getur maður annað gert þegar maður hefur reynt að beita öllum skynsamlegum rökum? Jú það er hægt að segja NEI! en ég kann bara svo vel við nágungann. Mitt helsta leynivopn er að reyna að falla á tíma en ég veit ekki samt. Ég er ekki búinn að gera upp hug minn. Ég mun auðvitað ekki segja hvernig þetta mál mun fara...mun ég láta beygja mig eða stend ég fastur á mínum prinsipum? Hver eru annars mín prinsip??? Á ég einhver Eurovisíon prinsip??? En hafið augun opin fyrir fyrirsögnum á borð við þessar:

Karlmaður á fertugsaldri flæktur í Evróvision svikamyllu!

Sænska tónlistamafían reynir að ná fótfestu á íslenskri grund. “ég var bara peð” segir Íslendingurinn í málinu...

Íslendingurinn hefur játað allt! “Teygir anga sína til A-Evrópu” segir ríkislögreglustjóri.

Mannshvarf á Spáni talist tengjast stóra söngvasakamálinu.

07 nóvember, 2006

Pabbinn/sonurinn kafli 2

hring...hring...
pabbi: "Halló?"
sonur: "Hæ pabbi...ég er að koma heim með 2 stelpum...heyrðu...það er soldið drasl í herberginu mínu, og bæði óhreinn þvottur og hreinn sem á eftir að ganga frá. Gætirðu nokkuð tekið það...a.m.k. nærbuxurnar?
pabbi: "Já, já ég redda því!"

Pabbinn stormar upp í herbergi og gerir það spikk og span á mettíma!

hring...hring...
pabbi: "Halló?"
sonur: "Hæ, þetta er ég...heyrðu...þær þurfa að fara á æfingu svo þær koma ekki með mér!"

Ætli þetta hafi ekki bara gerst eins og hann segir. En ef þetta var bragð til að láta þrífa herbergið fyrir sig hefur hann unnið sér það inn með frábærri hugkvæmni.

05 nóvember, 2006

Heimsóknarmet



Ásta er hjá okkur þessa dagana eða alveg þangað til veðrið lagast á Íslandi og flugvélar byrja að streyma til og frá landinu. Það er þó mjög gaman að segja frá því að þegar hún kom til landsins á miðvikudaginn var hún að koma í þriðja skipti til svíþjóðar á árinu. Svíar (og við) kunna vel að meta svona einbeitta gesti og fulltrúi konungsfjölskyldunnar tók því á móti henni og færði blómvönd við komuna til Arlanda.

Við vonum að þetta verði til þess að hverja aðra til að feta í fótspor Ástu og koma í heimsókn til okkar.