30 maí, 2007

Sænsk nei

Dæmisaga um Svía. Þessu lendir maður í mjög oft en þessi saga er bara svo svakalega lýsandi fyrir þá.

Manos, Jana og ég vorum að hjóla í Stokkhólmi þegar við ákváðum að setjast á mjög skemmtilegu útikaffihúsi við vatn rétt fyrir utan borgina. Við höfðum lofað Jönu ís svo ég vatt mér að afgreiðsludömunni og bað um ís. "Nei, við seljum ekki ís" svaraði hún af sænskri kurteisi. Við Manos litum í kringum okkur en það var ekki annan stað að sjá. En þar sem við höfðum lofað ís héldum við af stað í leit að ís. Þegar ekkert gekk snérum við aftur á gamla staðinn en mér hafði með lipurð tekist að sannfæra Jönu um að líta á matseðilinn á gamla íslausa staðnum með opnum huga. Kannski leyndist eitthvað jafn gott og ís. Þegar þangað var komið leit ég yfir seðilinn á krítartöflunni og þar stóð skýrum stöfum "Jarðaber með ís". Ég leit á afgreiðslukonuna og spurði í gríni "en áttu nokkuð jarðaber með ís?" og hún svaraði kurteislega játandi án þess svo mikið að blikka augum!

Mig langaði til að spyrja hvort til væru jarðaber. Trúlega hefði svarið verið kurteisilegt nei!
Lærdómurinn er þessi: ekki taka nei fyrir svar í Svíþjóð - það hefur ekki sömu merkingu og í okkar huga. Nei þýðir ekki nei, það þýðir "þú sagðir ekki rétta lykilorðið!" - prófið því allar hugsanlegar samsetningar áður en leitað er annað.

28 maí, 2007

Golfarinn


Dagur er að gera það gott í upphafi golfvertíðar. Hann tók um helgina forystuna eftir 3ja mótið í 6 móta röð í innanklúbbsmóti. Einnig er hann að keppa í Lilla Stockholmsligan sem er liðakeppni og þeir (Dagur og co.) hafa unnið alla sína leiki hingað til.

Hérna er stigakeppnin Cleaveland Junior. Hann er kominn niður í 16.9 í forgjöf og er á súperflugi kallinn.

25 maí, 2007

Stuldir, afrit eða lán


Hérna er bekkjamynd af okkur. Ég er þarna með Jönu en hún kom með mér í skólann þennan dag því Anna Sóley var að vinna í módelinu sínu. En eins og sjá má er þetta mest austurlandabúar. Við erum 6 sem erum frá Evrópu og Ameríkunum en annars eru flestir frá Iran, Pakistan, Indlandi, Kína og Bangladess. Við förum nú öll í sitthvora áttina þar sem við eigum bara lokaverkefnið eftir ásamt 1-2 valáföngum.

Ég hef heyrt frá nokkrum hvað flestir þarna hafa þurft að berjast fyrir því að fá góða menntun í heimalandi sínu, en t.d. í Bangladess eru um þúsund umsækjendur fyrir hvert pláss í háskólum. Síðan hafa þeir staðið sig það vel að þeir komumst inn í eina fría tölvuöryggisháskólanámi í veröldinni. Það er í rauninni aðdáunarvert af Svíum að bjóða upp á þetta, þeir bjóða ekki einu sinni upp á sama nám á sænsku og það eru ekki neinir Svíar í náminu! Louise Yngström er konan fyrir miðju og er Deildarstjórinn okkar. Hún hefur stundað rannsóknir á tölvuöryggi í tugi ára og maður gæti trúað að svona manneskja sé frekar stíf á hlutunum. En hún er alveg hið gagnstæða. Hún elskar fólk, elskar að umgangast ólíkt fólk og þegar svona ólíkir menningarheimar koma saman eru engin vandamál. Ef einhver er með sérþarfir eða vill gera eitthvað öðruvísi er það fyrsta sem hún segir "Sjálfsagt mál!" jafnvel áður en hún hefur heyrt alla söguna. Þetta er alls ekki sjálfgefið hjá Svíum það get ég staðfest. Ótrúlega skemmtilegur eiginleiki - hún gengur um ástfangin af lífinu og efninu og það smitar út frá sér.

Við vorum í fagi um daginn (Scientific Writing) sem snýst um að kenna okkur að skrifa mastersritgerð. Við áttum að skrifa eina stutta "alvöru" ritgerð en kennarinn tók þær og setti í gegnum ritstuldarforrit sem þeir voru að fjárfesta í og útkoman var skelfileg. Sumar ritgerðir með allt að 70% efnisins "í láni" frá öðrum. Það er alveg ljóst að þetta er bara menningarmismunur. Í augum margra er aðal málið að finna textann. Ef hann er til einhverstaðar og er vel skrifaður er óþarfi að umorða það eitthvað eða endilega segja hvaðan hann kom - who cares anyway, menn mega nota þeirra texta að vild! Aðal málið er að finna upplýsingarnar og redda sér þannig. Kannski er það bara besti svindlarinn sem kemst áfram í þessum harða heimi sem þau koma úr, ég skal ekki segja. Þetta er líka alltaf spurning um hvar maður dregur línurnar á stuldi. Ég hika kannski ekki við að hlaða niður tónlist af netinu en er einhver eðlismunur á því og ritstuldi? Stundum tek ég ljósmyndir af netinu og nota þær á þessari blogsíðu. Mér finnst ég ekki vera að stela þótt það sé stuldur ef maður greinir það, en mér finndist það vera stuldur með afritaðan texta - það er bara eitthvað sem hefur verið prentað í höfuðið á mér einhverstaðar á lífsleiðinni. Nemendunum finnst það ekki svo ég get ekki sett mig á háan stall og sagt þjófar! En skólinn gerir það til að halda uppi heiðir akademíunnar og hefur hótað að reka þá sem ekki breyta sínum ritgerðum eins og skot. Það er bara eitt verra en að svindla á prófi í háskólum og það er að stela texta!

Annars er það að frétta að það var gott að koma til Íslands um daginn þrátt fyrir að snúa til baka fullur af hori. Það er bara eitthvað svo íslenskt við það. Annað mjög íslenskt var rokið. Jana er svo óvön roki að hún fauk a.m.k. 5 sinnum á meðan við vorum heima. Hún kunni ekkert að stíga á móti vindinum sem lærist öllum sem þar hafa búið. Maður þarf að vera hálf skakkur alltaf :) Er þetta ekki orðið gott?
Posted by Picasa

23 maí, 2007

Orginalarnir

Posted by Picasa

22 maí, 2007

Þekkir þú okkur?

Úrslit fyrir neðan!
Miðvikudagsgetraunin að þessu sinni er einföld. "Dosti eða Jana" - segið hvaða mynd er af Dosta og hvaða mynd er af Jönu. - ATH Ella og Hrefna mega ekki svara, því miður - kannski síðast bara :)

Dregið verður úr réttum svörum fljótlega og eru vegleg verðlaun í boði. Ath myndirnar kunna að hafa verið gerðar óskýrari/eldri til að villa um fyrir fólki. Þannig er yfirbragð myndanna ekki endilega rétt.

Koma svo!

Úrslit:


Jæja, sjálfumglaði Dosti var auðvitað á öllum myndunum (hvaða annar pabbi myndi gera það?;) Orginalarnir fylgja til staðfestingar!!! En við jana gætum hugsanlega flokkast sem tvíburar í föðurlegg eða eitthvað svoleiðis. Við notuðum a.m.k. sama rakara.

En verðlaunin fara til Binna og Stínu! Þau hafa greinilega mjög næmt auga eða þekkja mig og mitt egó svona vel :) Magnað að þau fengu vinninginn saman því hann er einmitt eitthvað sem hægt er að njóta saman. Vinningurinn er ekki af verri endanum. Við bjóðum upp á dulkóðun á texta (allt að 100 orðbilum.)
Takk hinir fyrir og gangi ykkur bara betur næst!

20 maí, 2007

Hjálparhellur

Undanfarna mánuði hafa MARGIR hjálpað mér með allskyns útréttingar varðandi verkefnið. Ég hef sent fjölskyldumeðlimi út og suður í myndatökur, sækja og senda teikningar o.s.frv. Ég er óendanlega þakklát fyrir alla hjálpina. Una kom síðan í viku og gjörsamlega bjargaði mér og verkefninu. Hún kom á fullkomnum tímapunkti, ég var komin með nett ógeð á öllu saman, og hafði ekki lyst á að leysa vandamálin sem eftir voru. En með hennar hjálp leystust öll vandamálin og teikningarnar urðu hreinar!!! Það var eins og besta vítamínsprauta að fá hana og hennar innlegg, enda er hún snillingur og ekkert minna. Þvílíkur lottóvinningur fyrir mig. Hún lagði það á sig að sitja sveitt með mér daga og nætur og mygla yfir tölvuskjáum og teikningum. Eitthvað pínu hleypti ég henni niður í bæ, en vonandi kemur hún bara aftur einhverntímann til að sjá borgina betur. ÞÚSUND ÞAKKIR UNA:)

Já svo er ég bara búin að halda áfram á góðum hraða, allt tosast í rétta átt og lokaefnið að taka á sig mynd. Prentun eftir 11 daga! Á morgun ætla ég að byrja á 1:200 módelinu (sem passar á stóra gifshólinn). Tove, sænsk vinkona mín bauðst til að koma og hjálpa mér með það og ég þáði það auðvitað.

Það var gott að fá Dosta og Jönu heim frá Íslandi í dag, allir sameinaðir á ný:)

AS


3d
Originally uploaded by Anna Sóley.
nauðsynlegur búnaður... :)


IMG_3787
Originally uploaded by Anna Sóley.
Una á hinu frábæra kaffihúsi Sturekatten.


P1070936
Originally uploaded by Anna Sóley.
Fórum fyrsta kvöldið hennar Unu upp á hæð til að sýna henni borgina.


P1070938
Originally uploaded by Anna Sóley.


P1070910
Originally uploaded by Anna Sóley.


P1070880
Originally uploaded by Anna Sóley.


IMG_3804
Originally uploaded by Anna Sóley.
Una og Dosti í trivjali með mér.


P1080080
Originally uploaded by Anna Sóley.
Andyrið í skólanum mínum.


P1080082
Originally uploaded by Anna Sóley.
Tekið úr einu stúdíóinu.


P1080011
Originally uploaded by Anna Sóley.
þið eruð kannski komin með nóg af Runsamyndum, en þessar sem Una tók eru svo vorlegar að þær verða að fylgja með...


P1080012
Originally uploaded by Anna Sóley.


P1080003
Originally uploaded by Anna Sóley.
vatnið okkar


P1080027
Originally uploaded by Anna Sóley.
Kosninga-júróvisjónvaka hjá okkur á Runsa. Við, Una, Bergur, Binni, Stína og börn. Frábært grill, úrvals félagsskapur en vonbrigði með úrslit...á öllum vígstöðvum.


IMG_3775
Originally uploaded by Anna Sóley.
júróvisjóndansinn hans dosta.


IMG_3773
Originally uploaded by Anna Sóley.


P1080030
Originally uploaded by Anna Sóley.


P1080028
Originally uploaded by Anna Sóley.
ég og stína

Við erum komin

...heim með hálsbólgu, kvef, hita, ennisholustíflur og hellur - ætlum að reyna útflutning á þessu! Ísland best í heimi!

Ég legg það ekki í vana minn að blanda fótbolta hingað inn en ég meina váaaaa. Drogba var sko ekki með neitt kvef í gær! 2 titlar en hvað eruð þið með marga aftur? (beint að manU draugunum)

15 maí, 2007

Hjólastuð

Jæja, þá er hjólavertíðin hafin á ný fyrir alvöru. Það er mánuður í dag í 300km keppnina og að þessu sinni verð ég ekki einn heldur verða með mér vaskir sveinar, Bergur og Steini. Ég verð að segja að eins og þetta er gaman þá hefði ég varla nennt að standa í þessu einn aftur svo ég er himinlifandi.

Við erum auðvitað búnir að þjálfa eins og vitleysingar og við Bergur notum mjög skemmtilega síðu (funbeat.se) þar sem við skráum hreyfingu og fáum hvatningu og aðhald á mjög einfaldan hátt. Mæli með þessari síðu hiklaust. Við erum búnir að stunda líkamsrækt í um 1500 mínútur á síðustu 30 dögum sem gerir um 50 mínútur á dag að meðaltali!

Súluritin sýna æfingar í mínútum og dekkri flöturinn sýnir trendið síðustu viku eða eitthvað svoleiðis. Kosturinn við þetta kerfi er að maður er 1 mín að skrá inn æfingar og ekkert maus. Ef maður vill getur maður líka skráð hvað maður borðar og svoleiðis en það er fyrir kjéllingar :)

OK við Bergur fórum í fyrstu hjólakeppni ársins fyrir 10 dögum og komum í mark hönd í hönd lang-fyrstir. Við höfðum valið að taka styttri hringinn sem var 20km en í honum tóku aðeins þátt gamlar konur og fólk á fornhjólum. Við vorum svo fljótir í mark (40 mín) að ekkert var tilbúið og keppnisstjórinn stakk upp á að við tækjum bara annan hring...hversu mikil lítilsvirðing er það hahaha! En á sunnudaginn gerðum við betur og tókum þátt í 90km keppni. Hér er mynd af okkur þar sem við erum að gera okkur líklega.

Nú við stóðum okkur vel og komumst allir í mark og urðum í fertugasta og eitthvað sæti af tæplega 70. Hinsvegar var markmiðið bara að komast í mark að þessu sinni. Bergur fékk sinn racer fyrir mánuði síðan og ég er eiginlega alveg hissa á hvað hann lætur hafa sig út í og að hann skuli klára það bara vel. Greinilega með hetjugen! Steini er svo mikill orkubolti og svona 90 kílóum léttari en við og lét eins og kálfur að vori, rammvilltur tók hann auka 5 kílómetra fyrir vikið. Okkar helsta verk í stóru keppninni verður að hafa hann í bandi á milli okkar svo hann fari ekki 400km.

Hér eru myndir úr keppninni (teknar af Anders Jansson) til að gefa mynd af því við hvað við erum að etja kappi við. Að vísu eru sumir þarna menn sem við sjáum bara í startinu og þeir eru komnir í næstu keppni annarsstaðar í Svíþjóð þegar við erum að skríða í mark. Stundum tekur svona hópur framúr okkur og þá heyrist eins og í Morranum í Múmínálfunum. Svona hálfgerðlega óhuggulegt blásturshljóð fjúuuuuk. Og svo hverfa þeir fyrir fullt og allt þangað til um næstu helgi...

Það er eitthvað furðulegt við að mæta í hópi hundruða í spantexgöllum, það er óhætt að segja að hjólabúningar séu eitthvað sem tískuheimurinn hefur alveg látið framhjá sér fara. Ég skora því á unga hönnuði að hella sér út í þennan óplægða akur. Það er eins og múnderingin sé vísvitandi gerð þannig að hún haldi öllu nema alla mestu áhugamönnunum frá því að taka þátt í keppnum. Hugsunin er: "Viltu vera með? viltu það VIRKILEGA??? Viltu það svo mikið að þú viljir klæðast þessu??? OK þá ertu ALVÖRU áhugamaður!"



Síðan eru græjurnar. Maður er tengdur við ótal gervitungl og sensora og getur fengið endalausar útskriftir yfir árangurinn. Hjartalínurit, hæðalínurit, hraða, orkueyðslu, tíma uppímóti/n
iðrímóti, hæðalínur, kort og allt mögulegt.

En ég er ógeðslega glaður að Bergur og Steini séu jafn spenntir yfir þessu og ég. Þetta er engu líkt!!! Ég er ekki búinn að segja þeim það ennþá en við stefnum að 400+ km keppni í ágúst. Usss...fjúuuuuk!

Lokakynning, Una, og sumir óvænt í flugvél á morgun!

Það er kominn tími á lokakynninguna mína, 5.júní kl 13:30!!! Í dómnefndinni eru 2 Svíar, kona og maður og einn Norsari. Allir mega senda mikla lukkustrauma á þessari stundu til mín:)

Una er búin að hjálpa mér alveg ótrúlega mikið með verkefnið. Það er ómetanlegt að fá fersk augu lánuð til að skoða allt og betrumbæta. Hún hefur líka komið með frábærar hugmyndir til að einfalda alla uppröðun og gera allt skýrara. Það eru engar ýkjur þegar ég segi að fá hana hingað á þessum tímapunkti er eins og að vinna í lottói.

Eftir stífa vinnutörn síðan hún kom á fimmtudag, fórum við Una niður í bæ í gær. Ég hitti kennarann, honum leist vel á allar breytingarnar. Við Una ákváðum að við ættum skilið góðan frídag í borginni. Fórum á japanskan veitingastað, gengum þvers og kruss, fengum okkur kaffi og bláberjaköku, og gengum meira. Um kvöldið spiluðum við svo til 2 um nótt. Frábær dagur.

Eitt enn, Dosti og Jana koma óvænt til Íslands á morgun!!! Ég er ekki að grínast. Þegar þau lenda fara þau beint til Stykkishólms og ætla að hjálpa foreldrum Dosta að setja nýju orlofsíbúðirnar í stand. Þau koma í bæinn á laugardag til að fara í útskriftarveislu Böðvars, og fljúga heim á sunnudag. Veit ekki hversu mikið svigrúm þau hafa til að hitta fólk, ekki nema það fólk sem ætti leið um Stykkishólm!!!

AS

11 maí, 2007

Tætarar og meira um spæjara

Spæjarastelpan sem er með mér í bekk og ég sagði frá hér sagði eitt sinn að hún tætti allan póst heima hjá sér áður en hún henti honum út í tunnu. Þegar við kváðum spurði hún með hneykslan "Don't you???"

Hún er ekki með tætara hér í Svíþjóð en þess í stað safnar hún öllum póstinum saman yfir önnina og bíður eftir að foreldrar hennar komi í heimsókn (tvisvar á ári) svo þeir geti tekið póstinn til USA í tætingu. Þetta er sannleikur, ekki halda neitt annað!!!

Ég les daglega síðuna lifehacker sem er með allskonar skemmtilegar ábendingar varðandi tölvur og lífið. Um daginn bentu þeir á lista yfir hvað á að tæta og hversu reglulega og ég sendi þennan tengil á hana (Tætingar flokkaðar í Shred Now, Shred on a Monthly Basis, Shred on a Yearly Basis, Shred on a Seven-Year or 10-Year Basis, Never Shred). Maður skilur bara ekki hvað maður er eitthvað kærulaus ;)

Hún svaraði "wow that link is awesome thanks!" og bætti við að einu sinni gaf pabbi hennar grein um þetta sama efni og hún vildi geyma hana en... "but i thought it would defeat the whole message the article was trying to get across!" Svo hún tætti hana auðvitað! Núna hefur hún því eignast svipaða grein á netinu svo hún þarf ekki / getur ekki tætt hana (nema tæta allt internetið), en ég á backup af henni og best væri að fleiri skrifuðu hana út og kynntu sér málið. Við erum greinilega barbarar að tæta ekki meira.

OK segið mér að hún sé ekki í spæjari!

efni til dómara og Una

3 vikum fyrir lokakynningu þurfa allir sem eru að útskrifast að útbúa hefti með efninu sem varðar lokaverkefnið. Það er texti, skýringarmyndir, ljósmyndir og allar teikningar sem eru tilbúnar (sem eru auðvitað ekki tilbúnar en fara í því ástandi sem þær eru í). Ég gerði þetta, brunaði svo með 4 hefti upp í skóla í gær, þeir sjá svo um að senda dómnefndinni í pósti. Beint eftir það fórum við Dosti upp á Arlanda að sækja Unu:)

Frábært að hitta hana aftur eftir langan aðskilnað. Við fórum öll niður í bæ, gengum, borðuðum indverskt, fífluðumst á trampólínum, og horfðum yfir borgina frá háum punktum. Um kvöldið horfðum við svo á Eika og félaga og Dagur mallaði oreoísleðju handa okkur.

AS

07 maí, 2007

slutseminar



Originally uploaded by Anna Sóley.
jæja LÉTTIR að það er búið! Það gekk bara...mmm...ágætlega fannst mér. Ég var mjög sátt eiginlega. Fyrir utan kennarann var einn dani og einn sænskur arkitektauppi (þeir eru alltaf í svörtum galabuxum og lakkskóm (í alvöru)). Þeim fannst þetta spennandi verkefni og voru rosa áhugasamir að heyra allt um vatnið og stokkana á íslandi og allt það. Í stuttu máli, voru sáttir við aðalatriðin, smá lagfæringar hér og þar, veikir punktar hingað og þangað, ekkert alvarlegt og hægt að lagfæra held ég:) Svo að líkur á útskrift aukast enn.

Hér sjáið þið smá heimaskissu af steinahöllinni minni, spaið stingur sér út úr hólnum.

Best að fá sér langþráðan svefn.

as

Þórarinn opnar hjólaskápinn sinn (Hluti 1)

Gul-blái fáninn blaktir við hún þegar Þórarinn, glettinn á svip, tekur á móti okkur á óðalssetrinu í Stokkhólmsskógi. Það skín í augum hans ástin á lífinu, þessi kraftur og orka sem einkennir Íslendinga í fjarbúð...svona gæti þessi greinaflokkur byrjað ef hann væri í Mannlífi eða Vikunni, en á þessum nýjustu tímum með nýjustu tækni sleppir maður öllu kjaftæði og kemur sér hreint til verks. Ég ætla að opna hjólaskápinn minn og leiða þá sem vilja í allan sannleikann varðandi hjól. Ég er nefnilega síðbúinn hjóladellukall og tiltölulega nýbúinn að fara í gegnum rússíbanaferð um ólgusjó hjólaævintýranna (Mannlíf aftur?).

Ég byrjaði að hjóla aftur (svona hálfgert comeback) í vinnuna í Point fyrir um 3 árum síðan, eftir að hafa unnið öll innanhúsmót setti ég markið hærra og út fyrir landsteinana. Ég gerði að vísu byrjendamistök og keypti ódýrt hjól í Byko sem virtist alls ekki vera slæm kaup en það brotnaði mánuði síðar. Það var raunar aldrei neitt skemmtilegt hjól. Ég er mjög feginn að það brotnaði svona fljótt því ég datt ekki alveg af baki heldur keypti mér almennilegt hjól í Markinu, Scott Sportster. Ef hitt hjólið hefði ekki brotnað svona fljótt hefði ég strögglast á því hálf óánægður í nokkra mánuði í viðbót og svo lagt það til hinstu hvílu yfir veturinn. Ég hefði
bara smá saman sannfærst um að hjól væru ekkert fyrir mig og trúlega liðu 10-15 ár þangað til ég myndi kannski prófa aftur. Hagkaupshjól eru fín fyrir krakka, þau vaxa hvort eð er svo fljótt upp úr þeim að maður fer ekki að borga tugi þúsunda á hverju ári fyrir. En það ættu að vera reglugerð sem bannar sölu þeirra til fullorðinna. Ég meina það! Ef okkur er alvara um að koma fólki í form og breyta Reykjavík úr bílaborg í hjólaborg má ekki ota svona gallagripum að fólki.

Það er ótrúlegur munur á Hagkaupshjólunum og góðum hjólum frá sérverslunum. Ég meina ÓTRÚLEGUR munur. Hér koma nokkur atriði sem skilja þau að.

Í dag þarfnast góð hjól lágmarks viðhalds, ef maður er ekki mikið fyrir að stilla gíra og bremsur og slíkt eru þessi hjól eins og draumur manns. Maður bara fer út og hjólar. Það byrjar ekkert að losna á þeim eða skrölta eða hljóma óeðlilega. Maður nýtur ferðarinnar án þess að hlusta eftir aukahljóðum og hafa áhyggjur af bremsum eða einhverju álíka. Þetta er líka munurinn frá því maður var lítill. Það var alltaf eitthvað vesen með hjólin, ekki lengur. Dekkin eru t.d. losuð frá stellinu með einu handtaki og hjólinu skellt í skottið. Eins tekur 5 mínútur að skipta um slöngu og NB ég hef hjólað mörg þúsund km en aðeins sprungið hjá mér tvisvar! Ef einhver er að spá í að prufa hvort hjól eigi við sig ætti hann alls ekki að kaupa Hagkaups eða Bykohjól. Ég mæli frekar með að kaupa notaðan Scott eða sambærilegt hjól. Hitt mun varla endurvekja áhugann!

Og ef einhver er í vafa um hvernig hjól hann vill mæli ég með svona hjóli. Þetta er Scottinn minn.

Einkenni hans er að það er með þunn dekk sem gerir það að verkum að fyrir sömu orku hjólar maður miklu lengra og hraðar en t.d. á fjallahjóli. Þannig að til að komast til vinnu er þetta mjög gott. Þetta er ekta göngustígahjól. Það eru engir demparar á mínu hjóli en ég hefði ekkert á móti því að hafa smá dempara að framan því á Íslandi sérstaklega er maður mikið að fara upp og niður kanta sem hefur smá skot í olnbogana. En ekki hafa demparana og mikla því þeir draga í sig orku, sum hjól eru með stillanlega dempara þannig að hægt sé með einu handaki læsa þeim. Þetta er hjól sem mjög auðvelt er að ferðast t.d. 5km á 15 mínútum. Þetta er líka hjólið sem ég set barnastólinn fyrir Jönu og sæki hana á leikskólann og við syngjum Hér kemur Lína Langsokk hástöfum. Þetta er líka hjólið sem ég nota mest á vorin þegar ekki er búið að þrífa götur og stíga. Ég hjóla í skólann minn 22 km á rétt rúmri klukkustund.

Við svona hjól getur maður hæglega bætt við allskonar farangri, t.d. hliðartöskum sem eru upplagðar fyrir verslunarferðir o.þ.h. Þetta er fyrsta hjólið sem ég varð ástfanginn af. Þau áttu eftir að verða fleiri sem bitust um ást mína og er það efni næstu greina.

Hvað sem þið gerið, kaupið hjól með Shimano gírum og helst bremsum (margar góðar bremsur til líka). Hjól ætti ekki að vera meira en 13 kíló. Jafnvel þótt maður sé sjálfur að burðast með aukakíló skiptir miklu máli að hjólið sjálft sé ekki hlunkur. Það verður þá ómeðfærilegt og aksturseiginleikar versna.

Til að finna hvaða hjólamerki mælt er með og fá allskonar góð ráð mæli ég svo með að lesa korka/hjólamannaspjall hjá Hjólreiðafélagi Reykjavíkur (http://hfr.vortex.is/) og Hjólamönnum (http://hjolamenn.is/). Jafnvel nokkrar vikur aftur. Þar er a.m.k. hægt að sjá hvaða verslanir eru að selja alvöru hjól.
Posted by Picasa

04 maí, 2007


Dagur og Ronní að grilla pylsur
Posted by Picasa

Posted by Picasa


Valborgarhátíð
Posted by Picasa


Á leið í grillið
Posted by Picasa

Posted by Picasa


Posted by Picasa


Morteza og Rasma grilla
Posted by Picasa

Posted by Picasa

læra, mús, grill og tónleikar.

Jæja síðasta helgi var blanda af lærdómi og skemmtun, fengum samt smá áfall þegar við fréttum að það væri frí í leikskólanum mánudag og þriðjudag...og engar ömmur eða afar til að redda málunum. En Úlle var svo sætur að hann hringdi til Jönu og bauð henni í heimsókn til sín. Þar klifruðu þau í klettum og jörðuðu dauða mús sem samkvæmt Jönu hafði mjúkan feld og tvær tennur sem stóðu út!

Á föstudagskvöld fórum við Dosti á tónleika með Jóhanni Jóhannssyni, á æðislegum tónleikastað á söder. Góð stemning, hittum Röggu óvart þar því bróðir hennar spilaði á selló með strengjakvartetinum, sem var skemmtileg með tölvutónlistinni. Um helgina fórum við líka í grillveislu til Rösmu ásamt Manosi, Söru og því gengi. Maðurinn hennar grillaði írönsk kjötspjót, og margt annað gott með því, frábær matur. Okkur var bannað að koma með eitthvað í matinn en Manos kom með heimabúna bláberjaostaköku, hann er nú meiri matmaðurinn:)

Dosti er að vinna með hópi núna sem samanstendur af mörgum pakistönum. Það virðist ganga brösulega samstarfið og það er búið að vera mjög mikið drama, hótanir, viðvaranir og einhverjir fengu að fjúka. Jábbs hópverkefni geta reynt á.

Samkvæmt mínu dagatali er ég stödd í miðri "horrorviku", það er síðasta vikan fyrir "slutseminarium". Þá kynnum við verkefnið með helst allt efnið, (sem komið er), og 3 dæma það, þar af einn frá Danmörku. Þetta er lokayfirferð fyrir LOKAKYNNINGUNA. lokalokalokaspoka, hahahaha! Mér er stöðugt illt í maganum af stressi og þarf að kyrja mig í svefn á kvöldin. Var ég búin að segja: "ég get EKKI beðið..."?

Margir eru að spurja um útskriftina. Þetta fer svona fram: Við hengjum upp 3.júní. Okkur er svo úthlutað tíma einhverntímann milli 3.-8.júní. Fram á síðustu stundu getur maður lagað módel og dót sem fylgir með kynningunni (þ.e.a.s. þeir sem eru eins og ég). Kynningin tekur 45-60 min. fyrst kynnir maður sjálfur og svo svarar maður illkvitnum spurningum frá dómnefndinni. Trúið mér, þau eru ALLTAF illkvittin þó maður geti engu breytt þaðan í frá og allt sé búið. Það er engin stemning fyrir því að hæla því sem vel er gert eða samgleðjast áfanganum. Svo það fær fjölskyldan að gera eftir á:)

Formleg útskrift er í boði fyrir þá sem vilja. Þá fer maður í risaathöfn í ráðhúsinu með öllum úr hinum deildunum. Það eru svo margir að útskrifast úr öllum skólanum að það hlýtur að vera sólarhringslöng dagskrá. Úr mínum skóla eru ekki margir sem skrá sig í þessa athöfn, nema ef fjölskyldu þeirra finnst það mikilvægt. Ég held ég geti alveg fagnað á skemmtilegri hátt. En vá ég er farin að sjá það fyrir mér að útskrift verður raunveruleiki eftir mánuð, það er framþróun.

Þá er best að halda áfram, enda horrorvika. bless í bili AS