31 desember, 2006

Nýárskveðja

Ég þóttist vera að taka mynd af fjölskyldu minni en tók áramótamyndband í staðinn! Gleðilegt ár öll! Það verður skemmtilegt!
Núna virkar þetta!En það er best að taka fram að þetta er bara eins og venjuleg kvöldstund hjá okkur;)

30 desember, 2006

Drögum fram það besta í okkur!

Það var fjölskylda þar sem feðgarnir voru vanir að fara í leiðangur fyrir áramót og kaupa flugelda fyrir (segjum) 50 ríkisdali. Á hverju ári vissu þeir að þeir hefðu keypt fyrir aðeins meira en skynsamlegt væri og heima biði húsfreyjan sem hafði alls ekki gaman að sprengingunum og slysahættunni sem þeim fylgdi. Þannig var upphæðin komin niður í 30 þegar heim var komið og ástæðan var sú að björgunarsveitamennirnir voru í svo miklu hátíðarskapi að þeir voru nánast að gefa blysin.

Í ár háttaði þannig til að allir fjölskyldumeðlimirnir fóru saman í innkaupin. Feðgarnir voru því skíthræddir (handvissir) um að það yrðu bara stjörnuljós þessi áramótin, í mesta lagi ein lítil og hættulaus miðnæturbomba. En þeir hörkuðu af sér og létu á engu bera. En viti menn! Þegar heim var komið hafði verið keypt sprengiefni fyrir 90 ríkisdali!!!

Pabbinn skilur ekki af hverju hann fattaði þetta ekki miklu miklu fyrr! Konum finnst ekki gaman að sprengja en þeim finnst gaman að versla!

Skilaboðin fyrir þessi áramót eru því! Látið alla gera það sem þeir gera best. Látið konurnar kaupa sprengiefnið og karlana sprengja!

27 desember, 2006

Orðin stór


Jana varð stór á Þorláksmessu! Hér er hún nývöknuð með gjöfunum.

21 desember, 2006

Skonrokk (popp)

Hérna er smá yfirlit yfir góða sænska tónlist frá árinu sem er að líða. Maður verður að miðla svona upplýsingum fyrst maður á annað borð situr á þeim. Þetta er minn (Dosta) listi, og er eins og allir vita alveg gjörsamlega andstæðan við Önnu Sóleyjar lista. Vonandi kemur hann, ég bíð spenntur :E

Þetta er ekki í neinni ákveðinni röð en þó eru 2 diskar sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér og það eru Jenny Wilson og Raymond & Maria. Svo er Þetta allt auðvitað ákaflega poppkennt en þannig er það bara í Svíþjóð.

Raymond & Maria - Storstadskvinnor faller ner och dör
Frábær tónlist! Og á sænsku í þokkabót - bravó fyrir því!

Jenny Wilson - Let my shoes lead me forward
þetta er af flottasta diski ársins. Tvímælalaust.

Koop - Come to Me
Diskurin er misgóður en þetta lag er hrein snilld - mig langar til að hlaupa út á dansgólfið!


Peter, Bjorn & John - Let's Call It Off
Þetta er eins og besta 80s lag (Spandau Ballet myndband og Ultravox lag:)


I'm From Barcelona - Collection of Stamps

Álíka frægir og Pétur, Björn og John, svona útflutningsvara ársins í tónlistinni. Vandinn er bara sá að þau eru 29 í hljómsveitinni svo þau túra ekki auðveldlega. Ég læt fylgja með nafnalistann því líkurnar á því að þið þekkið einhvern í bandinu hljóta að vera góðar.
* Emanuel Lundgren (Founder)
* Frida Öhnell
* Cornelia Norgren
* Philip Erixon
* Micke Larsson
* Johan Mårtensson
* Anna Fröderberg
* Johan Aineland
* Martin Alfredsson
* Erik Ottosson
* Tina Håkansson
* David Ljung
* Christofer Olofsson
* Daniel Lindlöf
* Mattias Johansson
* Tobias Granstrand
* Emma Öhnell
* Mathias Alrikson
* Jonas Tjäder
* David Ottosson
* Maria Eriksson
* Olof Gardestrand
* Marcus Carlholt
* Julie Witwicki Carlsson
* Rikard Ljung
* Henrik Olofsson
* Jacob Sollenberg
* Fredrik Karp
* Johan Viking


Veronica Maggio - Nöjd?
Maður veit ekki hvort maður eigi að gráta eða hlægja yfir myndbandinu. Engu að síður gott popp.

Marit Bergman - Eyes Were Blue
Mæli með henni í hófi.

El Perro del Mar - God Knows (You gotta give to get)
Skemmtilegt svíapopp

Montt Mardié - Highschool Drama
Frábært lag.

Pelle Carlberg - Riverbank
Það er eitthvað við þetta sem fær mig til að langa að vaska upp ;)

The Knife - Like a Pen
Flott lag!

Aukaefni
José Gonzaléz - Hand On Your Heart
Þessi diskur er frá 2005 en þetta er bara svo ofboðslega gott að ég verð að benda þeim á þetta sem hafa ekki enn heyrt.

Hello Saferide feat Firefox AK - Long Lost Penpal
Diskurinn er líka frá 2005 en ég uppgötvaði hann í ár svo hann gildir fyrir 2006 ;) Þetta myndband er auðvitað væmnara en allt væmið en kíkið á það. Mmmmmmm.

Basshunter - Boten Anna
Þetta var vinsælasta lag ársins meðal unglinga, læt það flakka sem sögulegt sýnishorn.

20 desember, 2006

Person of the year

Ég var ekkert smá fúll með ódýrt val TIME á manni ársins. Þeir komust hjá því að velja leiðtoga öxulvelda hins illa með því að velja eitthvað alveg óáþreifanlegt og órætt. OKKUR!

Ég vil því efna til nýrrar keppni sem ógildir fyrra val. Allir verða að taka þátt í þessu (því það er svo sænskt). Semsé hér eru frægustu Persons Svíþjóðar, Þau Göran, Nina og Anja.

Veljið Person of the year með því að gefa comment.

18 desember, 2006

Óþarfa vitneskja = hættuleg vitneskja

Við lentum í fróðlegum bíltúr um Stokkhólm í sumar en með okkur var skemmtileg stelpa sem er mjög fróð um hringtorg. Hún hefur unnið hjá pabba sínum við hönnun þeirra en hann er sérfræðingur í hringtorgagerð og örugglega pabbi hans líka og langt aftur í ættir. Þarna komumst við að því að hringtorg eru ekki bara mismunandi í radíus og fjölda inn-/útleiða heldur eru miklar pælingar á bak við hvert hringtorg sem gefur því sinn sérstaka karakter. Hún leiddi okkur í allan sannleikann á meðan við þræddum í gegnum þau.

Með þessar “inside” en óþarfa upplýsingar vill svo til að þegar ég keyri inn í hringtorg fer ég ósjálfrátt að skoða karaktereinkenni þess – en það er einmitt eitthvað sem maður ætti að forðast að gera í miðju hringtorgi. Þetta er því stórhættuleg óþarfa vitneskja og sannar að ignorance er bliss.



En fyrir þá sem eru hringtorgsnördar eins og ég vil ég láta fylgja mynd af aðal hringtorgi Stokkhólms Sveaplan hringorginu. Þetta er mekka hringtorga á norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Þarna má greina a.m.k 5 hringi í einu og sama torginu. Fyrirmyndin hefur örugglega verið Ólympíumerkið (a.m.k. Audi merkið) og karaktereinkennin eru óteljandi. T.d. eru umferðaljós fyrir þá sem vilja keyra inn í það (og ég sem hélt að tilgangurinn með hringtorgum væri að koma í stað ljósa). Einnig lifa um 30 kanínupör vernduðu lífi á umferðaeyjunni. En það er skemmst frá því að segja að ég steinhætti að keyra þetta hringtorg eftir bíltúrinn í sumar, en ég fer þangað stundum fótgangandi með popp í poka og dáist bara.

14 desember, 2006

Gönguskíðafæri



Núna eru rétt rúmir 2 mánuðir í Vasaloppet og við Bergur erum orðnir býsna svekktir á að bíða eftir færi til að æfa okkur, þó ekki væri nema bara til að halda jafnvægi. En grasið heldur áfram að grænka, hér er 11 stiga hiti kl 21:45! Þessi mynd var tekin í gær! Nú var að birtast spáin um rauð jól í Stokkhólmi.

Hugsanlega munum við þurfa að láta vaða bara á skíðunum á heiðgrænum túnunum, það er örugglega bara vont fyrst en venst.

En hugurinn ber okkur ekki einu sinni hálfa leið ef við kunnum ekki á skíðin í febrúar...

Smá viðbót...hjálplegur vinur sendi þær fréttir að brautin hefur verið rudd!!!. Það er til fólk sem gerir svona. Nú er ekkert annað að gera en að skíða...kannski samt í skjóli myrkurs!




Eiðimerkur


Jah, maður hélt að maður hefði nú heyrt öll nöfn yfir landsliðsfyrirliðann okkar.
leiður smári, eitur smári, breiður smári, reiður smári, eiður klári og blandaðar útgáfur. En Jana sá mynd af honum í einhverju glanstímaritinu sem við fengum sent og sagði "Eiður...merkur!"

hahah, eitthvað skolast til hjá þriggja ára Austur-Íslendinginum. Helst vill maður ekki leiðrétta svona.

12 desember, 2006

Secret Agent

Við Anna Sóley höfum vingast við nokkra af skólafélögunum mínum. Helst ber þar að nefna Grikkjann margumtalaða og “ungfrú Д (sem við skulum nefna svo) sem er frá Bandaríkjunum. Við teljum hana burðast um með stórt leyndarmál. Af ótta við geislavirkt Sushi segjum við ekki neitt en gefum ykkur þær upplýsingar sem við búum yfir og leyfum ykkur að pússla saman heildarmyndinni.

Hún er semsagt eini Bandaríkjamaðurinn í þessu námi (upplýsinga og samskiptaöryggi) þar sem margir Pakistanar, Kínverjar, Íranir eru að læra allt sem þarf til að gerast hakkarar og hvernig tölvukerfi eru varin eftir bestu getu. Hún er með breskt vegabréf auk þess bandaríska. Hún er tölvuverkfræðingur frá Texasháskóla þar sem hún var í Honors-námi en annars býr hún í Washington D.C. (hjá öllum opinberu stofnununum;). Hún er mjög vel að sér í landafræði og menningu (sem lítið dæmi vissi hún að höfuðborg Honduras er Tegucigalpa sem verður að teljast sjaldgæft hjá Bandaríkjamanni).

Hún hefur dvalið tímabundið a.m.k. á Englandi, Spáni og í Svíþjóð (þetta er í annað sinn í Svíþjóð). Hún þylur gríska starfrófið frá alfa til ómega og skrifar á arabísku. Hún hefur æft Krav Maga bardagaíþróttina sem kemur frá ísraelska hernum og m.a. CIA, FBI og AFOSI Anti-terrorism Speciality Team þjálfa sitt fólk í
Á netinu er síða þar sem ungfrú Ð er skráð með “speciality: space & defence”. Til skýringa sagðist hún hafa starfað hjá Northrop Grumman Sjá kynningu að neðan.

Northrop Grumman er einn af stærstu “varna”-undirverktökum Bandaríkjanna. Þeir eiga fyrirtæki sem þjálfar þjóðvarðliða í Saudí Arabíu og nýstofnaða íraska herinn. Fyrrverandi yfirmaður NSA (National Security Agency) er aðstoðarforstjóri fyrirtækisins. NSA er fyrir þá sem ekki þekkja talin vera stærsti upplýsingaaflari heims. Stofnunin var kölluð “No Such Agency” þangað til Bandaríkjamenn viðurkenndu tilvist hennar. Ungfrú Ð segist hafa starfað hjá Northrop í projecti DD(X). En eins furðulegt og það kann að hljóma er það eini linkurinn sem virkar ekki á síðunni þeirra (sjá undir Capabilities)

Hún starfar núna hjá öðru fyrirtæki (ráðgjafafyrirtæki) sem við vitum ekki hvað heitir en það hefur að hennar sögn útibú út um allan heim. Allt þetta en hún er samt bara 26 ára! Það hafa komið upp mörg furðuleg atriði sem ekki er beint auðvelt að þylja upp hérna. En nýjasta dæmið er að hún verður ekki viðstödd lokaprófið í næstu viku. Það er ekki hlaupið að því að fá að taka lokaprófin í öðru landi en það vill svo til að kennarinn í þessum kúrsi er einmitt líka prófessor í Washington háskóla og verður einmitt staddur þar fyrir helbera tilviljun þegar prófið fer fram. Svo hann situr yfir henni sjálfur á meðan við verðum að sætta okkur við að vera prófessorlaus.

Grikkinn margumtalaði hefur verið að gera grín af okkur hingaðtil fyrir að halda þetta um hana en um helgina opnaði hann sig og sagði okkur Önnu Sóley að hann væri orðinn sannfærður og vísaði í það sem hann taldi vera sannanir fyrir því en það verður ekki rakið hér.

Hún talar aldrei um stjórnmál og virðist ekki hafa neina afstöðu í neinum hitamálum en er mjög forvitin um allt sem hún þekkir ekki. Þetta eru þeir hlutir sem við höfum komist að með því að umgangast hana í 4 mánuði og smá “background research”. Næst munum við fjalla ítarlega um íslensku vini okkar, einn af öðrum ;)

11 desember, 2006

Bekkurinn hans Dags


dagur bekkur
Originally uploaded by Anna Sóley.
Skondið að sjá hvað sumar stelpurnar eru uppstrílaðar fyrir myndatökuna. Dagur segir reyndar að þær séu svona vanalega þó engar myndavélar séu nærri! Fyrir ómannglögga er Dagur í fremstu röð, lengst til hægri.

Rumpum þessu af

Rumpum þessu bara málfræðinni af! (rumpa þýðir rass og það eru einmitt nánast bara eftir einhverjir kúk og piss málfræðipyttir)

sænska: Hör du ropar eller tíst?
íslenska: Heyrirðu hróp eða þögn?

sænska: Gubb med hor! oj!
íslenska: Gamall kall með hár! frábært!

og þetta er orðið gott Ingibjörg !

Fleiri gildrur

ef þið ætlið að segja: “Settu glösin í kassa”
skulið þið ekki segja: “Sette glasen i kassa”
því það merkir: “Settu ísinn í poka”

Það er kannski langsótt en alls ekki útilokað að einhver segi eftirfarandi setningu:
"Kolla! er du gunga eller ska du kissa skrattana og strumpana?"
Það merkir ekki: "Kolla ertu gúnga eða ætlarðu að kissa skrattana og strumpana?"
heldur: "Sjáðu! ertu róla eða ætlar þú að pissa hlátrunum og sokkunum?"

jájá, þetta er farið að þynnast...

10 desember, 2006

Hver þekkir Jönu?

Jæja, í annað sinn þarf Jana að ákveða hvað hún vill vera á Lúsíudeginum. Í fyrra var valið einfalt því hún hafði ekki hugmynd um hvað Lúsíur voru og ekki kom beint til greina að vera piparkaka. Því valdi hún að vera jólasveinn. Síðan sá hún hvað Lúsíurnar voru fallegar í kjólunum og piparkökurnar voru krúttlegar. Hér er sýnishorn af búningunum fyrir þá sem þekkja ekki.

Hún er nú búin að gera upp hug sinn, gerði það reyndar á síðustu Lúsíuhátíð og hefur verið staðföst síðan. En það væri gaman ef þeir sem þekkja hana reyndu að spreyta sig. Þekkirðu Jönu? Valdi hún jólasvein, piparköku eða Lúsíu? Gaman væri líka að vita hvað hefðuð þið valið!

08 desember, 2006

Sænskar málfræðigildrur #2

- Úr dýraríkinu ---

Þú hittir Jönu eftir skógarferð og segir henni að þú hafir hitt kind, pöddu og orm.
Ekki segja þá: “Hæ Jana! jag hittaðe en kind, padda og orm”
því það þýðir: “HÁKARLAR! ég fann kinn, körtu og slöngu”

Hæ (haj) þýðir semsagt hákarl og þegar við sækjum Jönu á leikskólann og segjum Hæ Jana!!! (Hajana) opnast mörg lítil augu. Hitta merkir að finna og getur í mörgum tilfellum komið sér illa að rugla þessu saman. Padda er svakalega fyndið en afskaplega vinsælt sem viðskeyti í Svíþjóð. Sköldpadda á sænsku merkir skjaldbaka, en talandi um það þá er “baka” auðvitað líka drepfyndið...þetta hljómar eins og einhver amerískur matur (I'll have a shield pie mam!).

07 desember, 2006

Freistingar eru til að standast! ogþó...


Með hverri mínútu sem líður, með hverju augnabliki erum við hjónin að slá persónuleg met sem munu koma ykkur mikið á óvart. Þann 17 nóvember komu pabbi og mamma með jólagjafir handa okkur og skildu þær eftir í okkar höndum 20 nóv, kl 11:14. Síðan þá höfum við EKKI freistast eða náð að sannfæra hvort annað um að opna pakkana. Það er alltaf einhver sem er sterkari, og göfugri en hinn þegar þörfin kemur upp. Nú er svo komið að ég er orðinn hræddur um að keppnisskapið sé orðið það mikið að pakkarnir verða aldrei opnaðir!!! Og þá vil ég frekar fara aftur í gamla farið.

- En (ég verð að koma þessu að...) það er auðvitað fáránlegt að láta eitthvað sem einhver er búinn að borga fyrir og VILL GEFA liggja dögum og vikum saman í gjafaumbúðum á meðan viðtakandi gæti verið í "quality time" með innihaldinu!!! þetta er auðvitað bara rugggl! Ég veit ekki hverjum datt þetta jólasystem upphaflega í hug! Það hefur ekki verið manneskja með rennandi blóði.

Innfellda myndin er til þess að sanna að myndin sé tekin í dag! er það ekki annars gert svona? ;)

05 desember, 2006

Jólagjöfin til ykkar

Valkvíði grípur yfirleitt um sig þegar kemur fram í desember. Hvað á að gefa ykkur öllum í jólagjöf? En það var auðvelt í ár! Jólagjöfin í ár er "sérþekking" okkar á sænsku og ætlum fram að jólum að bjóða upp á fimm þátta seríu í sænskum málfræðigildrum sem þarf að vara sig á. Notkunargildið er augljóst! þið komið öll í heimsókn og svo er þetta góðir punktar til að rjúfa óþægilegar þagnir og slá um sig í partíum!!!

Fyrsta gildran birtist hér (stafsetningin á sænsku er íslenskuð til að auðvelda partíframburð)

ef þið ætlið að segja: “Fröken Elva er róleg”
skulið þið alls ekki segja: “Fröken Elva er rólig”
því það merkir: “kennslukona ellefu er skemmtileg”

Er þetta ekki rólegt? ;)